Það er ekki bara það að lífeyrissjóðirnir „auglýsi“ sem má gera athugasemdir við. Í auglýsingunum hrósa forystumenn lífeyrissjóðanna sér af því að greiða fólki lífeyri „alla ævi þess“, þ.e. eftir að það nær tilteknum aldri. En hvað með hina? Hvað með það fólk sem vinnur hörðum höndum áratugum saman, þarf í hverjum einasta mánuði starfsævinnar að sjá eftir hluta tekna sinna í greipar kolkrabba nauðungarsjóðanna, og andast svo hálfsjötugt. Þetta fólk fær aldrei að sjá krónu af þessum eigum sínum, erfingjar þess, nánustu ættingjar, sjá heldur ekki krónu af þeim. Forystumenn nauðungarsjóðanna sjá þessar krónur hins vegar, deila hluta af þeim út, kaupa hlautabréf í fyrirtækjum og setjast sjálfir þar í stjórnir, og kaupa síðan dýrar sjónvarpsauglýsingar og slá sig þar til riddara.
Hvað ætli menn segðu ef einkafyrirtæki tæki mánaðarlega upp á því að taka – með ofbeldi ef þyrfti – hluta af tekjum einhvers manns, og segja við hann að ef hann lifði í nokkra áratugi til viðbótar myndi honum verða greidd nokkur upphæð á mánuði samkvæmt ákvörðun fyrirtækisins? Næði hann ekki þessum aldri fengi hann aldrei krónu til baka. Það er líklegt að forystumönnum slíks fyrirtækis yrði komið bak við lás og slá. Það þætti litlu skipta þó forsvarsmenn fyrirtækisins vildu vel og að þeir teldu launþeganum í hag að þeir ávöxtuðu fyrir hann féð og borguðu honum til baka eftir fjörutíu ár
Í leiðara Viðskiptablaðsins nú í vikunni segir: „Það er ástæða til að stoppa við stutta frétt sem má finna í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins í dag. Þar er sagt frá því að kornuppskeran er það mikil í Rússlandi í ár að gert er ráð fyrir að Rússar geti flutt út korn í fyrsta skipti í 50 ár. Þetta verða að teljast nokkur tíðindi og vonandi til marks um að áhersla Rússa á að styðja einkaframtak bænda sé að skila árangri. En hvað var að gerast síðustu 50 árin? Hvernig gat það verið að þetta mikla kornræktarland, þar sem akrarnir virðast óendanlegir, þurfti hvað eftir annað að flytja inn korn til að brauðfæða þjóðina. Má vera að málið skiljist betur þegar litið er til þess sem er að gerast í Norður-Kóreu þessa dagana. … Þar sem framtak og
framleiðsla eru slitin úr eðlilegu samhengi er ekki von á góðu. Framtakið hverfur og framleiðslan um leið. Í raun er ótrúlega einfalt að stöðva hungursneyiðina í Norður-Kóreu. Það þarf bara að rífa upp landamæragirðingarnar og hreinsa burtu jarðsprengjurnar þannig að fólk komist á milli. Þannig má reyndar stöðva flestar hungursneyðir, með því einfaldlega að tryggja frjáls viðskipti.“
Þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eru farnir að láta á sér kræla á Netinu. Stuðningsmenn Kjartans Magnússonar hafa riðið á vaðið og sett upp heimasíðu þar sem frambjóðandinn kynnir sig og baráttumál sín. Fleiri munu væntanlega bætast við næstu daga.