Samkvæmt sömu umfjöllun blaðsins kemur í ljós að hlutfallslega mest útgjaldaaukning hins opinbera er í vaxtagreiðslum og stafar það vitaskuld af eyðslustefnu og skuldasöfnun síðustu áratuga. Næst mest er aukningin í millifærslum og niðurgreiðslum, en það er jafnframt stærsti útgjaldaliður hins opinbera og hefur aukist úr um 16% af landsframleiðslu árið 1960 í um 22% árið 1990. Lausnin á þessu hvoru tveggja er að endurhugsa hlutverk ríkisins. Ríkið verður að hætta að reyna að gera allt fyrir alla, en einbeita sér þess í stað að fáum afmörkuðum verkefnum. Ef takast á að koma böndum á ríkisvaldið verður það að hætta að koma fram sem barnfóstra og skemmtikraftur fyrir fullorðið fólk.
Athugasemd við Veiðigjald, IX. af IX – lokaorð: Þeim sem fylgst hafa með umræðunni um auðlindaskattinn síðustu misseri er löngu orðið ljóst að stuðningsmönnum hans hefur ekki tekist að sýna fram á að hagkvæmnisrök mæli með skattinum. Þvert á móti viðurkenna flestir nú að fyrir auðlindaskattinum eru ekki haldbær hagfræðileg rök. En mikilvægustu hagrænu rökin gegn honum eru ef til vill þau að hann leiddi til skattahækkunar, enda eru fáir svo trúaðir á stjórnmálin að þeir láti segja sér að stjórnmálamenn mundu lækka aðra skatta fyllilega til samræmis við upphæð auðlindaskattsins. Líklegast er að ríkið krækti í nokkra milljarða króna aukalega og atvinnulífið hefði þeim mun minna úr að moða til arðbærra verkefna. Í þessu sambandi er rétt að nefna, að Þórólfur vísar í nýlega rannsókn hagfræðinganna Sachs og Warner sem segir að ekkert samband sé á milli hagvaxtar og þess hversu auðugt þjóðfélag er af náttúruauðlindum. Það er engin furða enda eru náttúruauðlindir ekki verðmæti í sjálfum sér heldur verða þær verðmætar þegar menn beita hugviti sínu til að nýta þær. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að samband er á milli efnahagsfrelsis og hagvaxtar enda gefst mönnum þá kostur á að nýta hugvit sitt til auðsköpunar. Auðlindaskattur, sem eykur ríkisumsvif og minnkar efnahagsfrelsi, er því augljóslega ekki til þess fallinn að auka hagvöxt.
Í þessari molaröð Vef-Þjóðviljans um grein Þórólfs Matthíassonar, Veiðigjald, í Fjármálatíðindum hefur sjónum mest verið beint að hagrænum rökum gegn auðlindaskatti og stafar það einfaldlega af því að áherslur Þórólfs voru mestar á hagfræðilegar afleiðingar skattsins. Réttlætisrökin gegn auðlindaskattinum eru þó ekki síður mikilvæg, því enda þótt svo einkennilega vilji til að fylgjendur skattsins telji sig stundum vera boðbera réttlætisins eru réttlætisrökin gegn skattinum mun sterkari en þau sem mæla með honum. Nánari umfjöllun um þau bíður betri tíma.
Elsa B. Valsdóttir hefur hafið lestur pistla í morgunútvarpi Rásar 2 annan hvern þriðjudagsmorgun. Elsa flutti fyrsta pistillinn fyrir tæpum tveimur vikum og sá næsti verður upp úr kl. 8:30 í fyrramálið. Vef-Þjóðviljinn hefur fengið leyfi Elsu til að birta pistlana að lestri loknum. Hér er hinn fyrsti.