Er réttlæti merkingarlaust?
Um þetta mætti ætla að allir væru sammála, en þá tekur Tryggvi Þór upp á þeim undarlega hrekk að halda því fram að réttlæti eigi ekkert erindi í umræðunni um þjóðfélagsmál, einungis vegna þess að fólk hefur mismunandi skoðanir á því hvað réttlæti sé. Tryggvi Þór kemst því í hróplega mótsögn við sjálfan sig, auk þess að hafa rangt fyrir sér. Tryggvi Þór hefur rangt fyrir sér um það að réttlæti sé merkingarlaust vegna þess að menn eru ekki á eitt sáttir um hvað það nákvæmlega merkir. Raunar gerir fólk væntanlega mun meira veður út af ágreiningi um réttlæti en efni standa til, fólk er sammála um lang flest, s.s. mikilvægi orðheldni, réttinn til lífs, frelsis o.s.frv., þó það kunni að greina á um útfærslu þessara gilda, en menn deila mjög hart um þau siðferðilegu álitaefni sem þeir eru ósammála um, einmitt vegna þess að réttlæti er svo mikilvægt. Tryggvi Þór virðist hugsa sér að vegna þess að ekki er hægt að komast að ótvíræðri niðurstöðu um þesi mál með mælingum að þá séu spurningarnar merkingarlausar, en sum gildi eru ræðanleg en ekki reiknanleg.
Er hagfræði merkingarlaus?
Ef þessi dómur hans ætti við um réttlæti mætti segja það sama um hagfræðina, enda eru menn þar á bæ ekki á eitt sáttir um merkingu grundvallarhugtaka eins og peningamagns og hagvaxtar, svo eitthvað sé nefnt. Hið sama á t.a.m. einnig við um fagurfræði. Fegurð og réttlæti eru víðs fjarri því að vera einvörðungu persónulegur smekkur, þar sem við deilum þessum gildum með okkur í samfélagi – ræðum þau – og þokumst í átt að eða frá samkomulagi um merkingu þeirra. Það dytti heldur ekki nokkrum manni í hug að halda því fram að hagfræði væri gagnslaus vegna þess að innan hennar er lifandi orðræða um kenningar og aðferðir. Ef slíkrar orðræðu nyti ekki við breyttist hagfræðin í dauða kreddu. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir að hagfræðin er enginn æðsti dómur í þjóðfélagsmálum. Hagfræðin, hvort.sem einstaka hagfræðingum líkar betur eða verr, er hækja siðfræðinnar.
Hver á að gera úttekt á úttektunum?
Enn verri er sú mótsögn Tryggva að ekki sé hægt að mynda sér skoðun á auðlindaskatti nema að undangenginni “nákvæmriâ þjóðhagslegri úttekt á áhrifum slíks skatts. En heldur því svo framað slík úttekt segi mönnum hvort slíkur skattur sé æskilegur eður ei. Þá skyndilega skiptir hlutleysið ekki lengur máli! Enda kannski ekki nema furða þegar búið er að dæma alla umræðu um gildisdóma úr leik. En Tryggvi Þór lætur þeirri spurningu ósvarað hvaða breytu í haglíkaninu beri að hámarka eða lágmarka til að komast að því hvort auðlindaskattur sé æskilegur! Það skyldi þó ekki vera að slík ákvörðun fæli í sér gildisdóma?
Það er ekki óeðlilegt að menn eins og Tryggvi Þór hafi trú á úttektum stofnunar sinnar, en við hin höfum enga vissu um nákvæmni þeirra og kunnum jafnvel að efast um þær. Við höfum jafnframt hugmyndir um hvað sé rétt og hvað sé rangt, og þó svo við getum ekki skorið úr um ágreining okkar með reikningsdæmi þá getum rætt mismunandi skoðanir okkar og reynt að komast að niðurstöðu. Aðalatriðið er að reynslan sýnir að okkur farnast best í lýðræðisríki en ekki í sérfæðingaveldi. Stofnun eins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands getur gegnt mikilvægu hlutverki í lýðræðislegri orðræðu, svo lengi sem hún skilur takmarkanir sínar og sættir sig við þær.