Pólitískar ráðningar hafa verið mikið til tals að undanförnu og það ekki að ástæðulausu. Menn hafa einkum beint sjónum að bankakerfinu þar sem nánast hver einasti kosningasmali framsóknarflokksins er nú kominn í stjórn. Nýjasta hneykslið í þessari hrinu er ráðning Helga H. Jónssonar. Helgi er framsóknarmaður og engu brosmildari en Halldór. Hann var tekinn fram yfir Elínu Hirst, sem hefur löngum þótt einn besti fréttamaður landsins, vegna þess eins að menn halda að Elín sé í Sjálfstæðisflokknum.
Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að þetta séu makleg málagjöld fyrir Elínu þar sem stúlkan sem var ráðin umsjónarmaður plötusnúðanna á Rás 2 í sumar hafi einnig verið meðlimur í Sjálfstæðisflokknum! Þá má spyrja sig hvort ekki hafi verið rétt að setja í starfsauglýsinguna að ráðning væri háð stjórnmálaskoðunum annarra starfsmanna? Það er löngu orðið ljóst að ríkinu er ekki treystandi til að reka fyrirtæki því flokksskírteini mun alltaf vega þyngra við ráðningar en verðleikar. Er hægt að hugsa sér betri réttlætingu fyrir einkavæðingu bankanna og Rúv, en valdníðslu framsóknarmanna í þessum stofnunum?
Athugasemd við Veiðigjald, VIII. af IX: Ein helsta röksemd formælenda auðlindaskatts er að hann sé „hlutlaus“ skattur og brengli ekki verðmyndun. Það sem þeir virðast eiga við er að hagnaðurinn af auðlindinni sé umfram það sem gerist í öðrum atvinnugreinum að teknu tilliti til áhættu. Þess vegna sé óhætt sé að skattleggja hana sérstaklega um það sem nemur umfram hagnaðinum, án þess að það dragi úr nýtingu hennar. Þórólfi sést yfir tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi yrði slíkur skattur að vera sértækur fyrir hvert fyrirtæki því það er merkingarlaust að tala um hagnað heillar greinar og fara að skattleggja einstök fyrirtæki eftir því (hvert fyrirtæki er einstakt hvað varðar samsetningu framleiðsluþátta og hráefnis, t.d. hvort það er í uppsjávar- eða bolfiskveiðum). Í öðru lagi er ekki hægt að reyna að meta hvort að arður sé of mikill eða of lítill miðað við áhættu fyrr en í fyrsta lagi eftir á og jafnvel þá verður svarið aldrei einhlítt miðað við það tímabil og hefur raunar ekkert að segja um framtíðina, þar sem áhætta breytist í sífellu. Það er alls ekkert ólíklegt að töluverður umfram hagnaður, samanborið við aðra fjárfestingarkosti, hafi myndast þegar kvótum var úthlutað hér á landi. En sá kvóti var ekki af neinum tekinn, heldur myndaðist við að réttaróvissu var eytt. (Þetta væri svipað því að bófaflokkur léki lausum hala í einu hverfi borgarinnar og næði að hrella íbúana svo að hús í hverfinu lækkuðu í verði. Síðan tækist lögreglustjóra að koma böndum á flokkinn og hús hækkuðu í verði á ný – væri þá um óeðlilegan gróða að ræða?) Sannleikurinn er auk þess sá að mjög ólíklegt er að þessi umfram hagnaður sé enn til staðar, heldur hafi verð veiðiheimilda hækkað þannig að hagnaður milli greina hafi jafnast að teknu tilliti til áhættu.