Um fátt er meira ritað í dagblöðin þessa dagana en kosti og galla veiðileyfagjalds. Það er auðvitað sorglegt að helsta umræðuefnið er nýr skattur en ekki hvernig fækka megi þeim sköttum sem fyrir eru. En við höldum engu að síður áfram að fjalla um grein Þórólfs Matthíassonar í Fjármálatíðindum.
Athugasemd við Veiðigjald, IV. af IX: Eitt af því sem gerir umræðu um auðlindaskatt á sjávarútveg erfiða er að fylgjendur skattsins eru lítið fyrir að útfæra hugmyndir sínar. Þannig kann röksemd Þórólfs um að auðlindaskatturinn sé „trygging gagnvart áhættu“ að eiga að nokkru við um sumar útfærslur en ekki um aðrar. Hann bendir á að sá sem kaupir kvóta í dag taki áhættu því afurðaverð geti lækkað eða kostnaður hækkað og því sé hagstætt að leggja á skatt sem tengdur er tekjum og kostnaði útgerðar þannig að hann sé hár þegar vel árar í sjávarútvegi og öfugt. Væri auðlindaskattur lagður á árlega ætti þessi röksemd tæpast við, því fyrirtæki kaupa ekki kvóta árlega. Væri hann á hinn bóginn einungis lagður á sem eins konar söluskattur við kvótasölu ætti hún betur við, en þó einungis ef aðeins er litið á kaupandann, því seljandinn græðir varla á lægra verði vegna skattsins. Það má einnig segja að allir skattar lækki sveiflur, en reynslan er sú að þeir lækka hagnaðarvon fyrirtækja ekki hættu þeirra á tapi. Auk þess er spurning hvort auknar sveiflur í tekjum ríkisins séu æskilegar, því eins og kunnugt er reynist það stjórnmálamönnum mun auðveldara að hækka útgjöld en að lækka þau. Með auðlindaskatti væri því líklega verið að auka sjálfvirkni hækkunar ríkisútgjalda.