Undanfarin ár hefur nokkuð borið á því að stjórnmálaumræðan…
sé að breytast. Færri og færri ræða raunveruleg grundvallaratriði en leggja aðal áherslu á tæknileg atriði. Ungir vinstri menn hafa lengi aðallega haft áhuga á að sameina nokkra flokka en minni áhuga á því hvað hinn nýi flokkur ætti að hafa fyrir stafni eftir sameiningu. Þá er skammt að minnast síðustu borgarstjórnarkosningar í Reykjavík þar sem vinstri flokkarnir sameinuðust um þá einu stefnu að komast að kjötkötlunum. Fjöldi þingmenna virðist hafa hlotið mikið gengi í prófkjörum án þess að eiga annað sjáanlegt erindi en að gæta hagsmuna t.d. sjómanna, kvenna eða íþróttamanna. Undantekningar frá þessari tilhneigingu hafa vissulega verið nokkrar. Þannig hafa ungir sjálfstæðismenn undanfarinn áratug beitt sér töluvert fyrir umræðu um pólitísk grundvallaratriði. Á síðustu árum hefur þó einnig hallað undan fæti á þeim bæ. Mörgum þykir sem á síðustu árum hafi ungir sjálfstæðismenn sýnt meiri og meiri áhuga á tæknilegum atriðum ríkisrekstrar en látið sér meginspurningar í léttara rúmi liggja. Ýmis dæmi eru nefnd þessu til stuðnings. SUS velti þannig oft fyrir sér hvernig nýta megi opinber framlög til ýmissa mála, t.d. húsnæðismála, betur en nú er gert, en berjist lítið fyrir því að framlögin verði felld niður eða minnkuð verulega. Þá láti SUS lítið í sér heyra um skattalækkanir en hafi mjög mikinn áhuga á að tilhögun skattframtala verði breytt. Nú er verið undirbúa þing SUS sem haldið verður í haust og herma fregnir úr þeim herbúðum að frá ýmsum nefndum þingsins sé einkum að vænta ályktana um tæknileg atriði. Meðal þess sem hæst hafi t.d. borið í starfi skattanefndar SUS, sem mun sjá um ályktun um ríkisfjármál, undanfarnar vikur séu t.d. mál eins og:
Skattlagning greiðslna sem flytjast eiga milli landa, skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi í samanburði við viðskiptalönd okkar, eignarskattar, afskriftareglur, skattlagning arðs, tapsfrádráttur, skattlagning við formbreytingu fyrirtækja, virðisaukaskattur, aðflutningsgjöld, skattaleg atriði sem upp koma í viðskiptum við önnur lönd, leiðir til að laða að erlenda fjárfesta, á að reyna skattalega hvata til þess?, tvísköttunarsamningar, hversu miklu máli skipta skattareglur fyrir fjárfesta? o. s. frv.
Allt eru þetta eflaust þýðingarmikil tæknileg atriði og vafalítið hægt að bæta hag almennings nokkuð með umbótum á þessum sviðum. Þá er ánægjulegt þegar ungt fólk er reiðubúið að leggja jafn mikla vinnu og hér er gert, í pólitískt starf. En einhvern veginn sakna menn ákveðinna tillagna um stórfelldan niðurskurð ríkisútgjalda, afnám margra skatta og lækkun annarra í framhaldi af því. Ræða mætti réttlætingu ýmissa skatta, hvort nokkuð væri sem gæti réttlætt t.d. eignaskatt eða erfðafjárskatt og svo mætti lengi telja. Þó gagnlegt geti verið að velta fyrir sér afleiðingum ákveðinna skattareglna mega menn ekki gleyma að hugleiða hvort og þá hvað fái réttlætt hvern skatt yfir höfuð.
Vonandi mun pólitísk umræða á Íslandi á næstu árum þróast meira í þá átt að fólk ræði meginatriði stjórnmálanna en eyði ekki öllum sínum tíma í tæknileg atriði. Hugsjónamenn eiga að leiða hugmyndabaráttuna og ungliðahreyfing stjórnmálaflokks þarf öðrum fremur á hugmyndaríku hugsjónafólki að halda. Þeir, eða þær, sem best njóta sín í starfsliði ráðuneytanna, ættu hins vegar að halda sig þar.
Helgarsprokið 31. ágúst 1997
243. tbl. 1. árg.