Mánudagur 1. september 1997

244. tbl. 1. árg.
Hugtakið milliliður…
hefur löngum verið notað í niðrandi merkingu þótt hlutverk milliliðs í venjulegum viðskiptum sé ekki annað en að færa vöru frá aðila sem vill fá fé í staðinn til aðila sem vantar vöruna og er tilbúinn að láta fé fyrir. Á fjórða áratugnum var við stjórnvölinn svonefnd stjórn hinna vinnandi stétta og var þar átt við bændur, sjómenn og verkafólk. Aðalstefna stjórnarinnar var víðtækur haftabúskapur. Í bókinni Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson segir svo frá viðhorfi stjórnar hinna vinnandi stétta til milliliða og viðbrögðum við því viðhorfi: „Einn þingmaður viðraði þá hugmynd að senda heildsala, smásala, búðarlokur og skrifstofublesa til sjós! Sagt var að Jóhannes Sveinsson Kjarval hefði stungið þeirri umbótatillögu að stjórn Landsbankans að leggja af heyskap á sumrum, en þess í stað rista torf af túnum og geyma það síðan vandlega til vetrarins og láta þá kýrnar um að heyja sjálfar. „Milliliðalaus er þessi aðferð ekki en þó töluvert nær markinu,“ skrifaði Pétur Benediktsson: „Til eru hótfyndnir menn sem vilja ganga feti lengra og telja kúna óþarfa millilið, við ættum öll að ganga í grasbítafélagið og live happily ever after“.“