Laugardagur 30. ágúst 1997

242. tbl. 1. árg.

Jöfnun atkvæðisréttar í þingkosningum hefur lengi verið til umræðu enda atkvæðavægið…
verið ójafnt allt frá endurreisn Alþingis árið 1845. Árin 1942 og 1959 voru gerðar nokkrar úrbætur á ástandinu og einnig árið 1987 þegar þingstyrkur stjórnmálaflokkanna var færður til betra samræmis við kjörfylgi þeirra. Sú breyting gerði kerfið hins vegar svo flókið að telja má þá menn á fingrum annarrar handar sem skilja stærðfræðiþrautirnar sem að baki búa. Þannig er það algjör hending hvaða jöfnunarþingmenn ná kjöri sem eru síðustu þingmenn hvers kjördæmis. En þeir eru notaðir til að jafna hlutföllin milli flokkanna. Þingmenn velta út og inn af þingi á kosninganótt enda geta atkvæði greidd öðrum flokkum en þeirra eigin í öðrum kjördæmum skipt sköpum. Margir halda eflaust að með þessu misvægi sé aðeins hallað á íbúa á höfuðborgarsvæðinu enda benda menn gjarna á að Vestfirðingar hafa þrefalt atkvæðavægi á við Reykvíkinga og Reyknesinga. Svo er þó alls ekki eingöngu. Til dæmis hefur Siglfirðingur tvöfalt atkvæðavægi á við Ólafsfirðing. Vægið milli atkvæða í einstökum kjördæmum er annars með eftirfarandi hætti í dag:

Kjördæmi Atkvæðavægi
Reykjavík 0,310
Reykjanes 0,313
Vesturland 0,643
Vestfirðir 1,000
Norðurland vestra 0,880
Norðurland eystra 0,401
Austurland 0,701
Suðurland 0,525

Ýmsar leiðir koma til greina við jöfnun atkvæðisréttarins. Halda mætti óbreyttri kjördæmaskipan en fækka þingmönnum í þeim kjördæmum sem hafa mest vægi í dag. Þá yrðu aðeins tveir þingmenn eftir á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Einfaldasta leiðin er að gera landið að einu kjördæmi og þá næðist einnig fullkominn jöfnuður atkvæðavægis. Þriðja leiðin er einmenningskjördæmi. Aðalkosturinn við einmenningskjördæmi er að menn geta ekki falið sig á framboðslistum og flotið með heldur væru þingmenn nær umbjóðendum sínum og háðari þeim. Í fjórða lagi mætti svo hugsa sér tví- eða þrímenningskjördæmi eða einhverskonar blöndu af lista- og persónukosningu. Leiðin að jöfnuði atkvæðisréttar er þó aukatriði og val hennar má ekki tefja för manna að markmiðinu sjálfu: Að allir landsmenn njóti sama kosningaréttar.