Í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi var viðtal við Guðmund Ólafsson…
hagfræðing vegna umræðu um hvort skipta eigi úr lánskerfi yfir í styrkjakerfi fyrir námsmenn. Steingrímur Ari Arason benti á það í fréttum í fyrrakvöld að styrkurinn í námslánakerfinu væri að meðaltali um 50% af lánsfjárhæð vegna niðurgreiddra vaxta og hagstæðrar endurgreiðslu. Guðmundur benti hins vegar á að 10% lánsþega fengju um 90% styrksins í lánakerfinu þ.e. þeir sem væru lengst í námi og tækju hæstu lánin og því væri rétt að taka upp beina styrki. Þetta er ágæt ábending hjá Guðmundi og enn eitt dæmið um hve félagsleg kerfi hins opinbera eru óréttlát. (Þau eru líka byggð á þeirri þversögn að jafna skilyrði manna með því að mismuna þeim!) Með því að taka upp beina styrki er hins vegar hætt við að fleiri myndu sækja í námsaðstoðarkerfið, þ.e. fólk sem ekki telur sig þurfa á námslánum í dag en myndi ekki slá hendinni á móti mánaðarlegu gjafabréfi á ríkissjóð. Kerfið þyrfti því á meira fé að halda eða lækka þyrfti greiðslur til hvers og eins. Leitin að góðu félagslegu kerfi heldur því áfram.
Laugardagur 23. ágúst 1997
235. tbl. 1. árg.