Þessa dagana birta fjölmiðlar upplýsingar úr skattskrám…
og nota þær gjarna til að áætla tekjur fólks. Enginn virðist andmæla því að þessar skattskrár séu lagðar fram. Við það er þó ýmislegt að athuga. Með því að hafa skattskrár opnar eru veittar miklar upplýsingar um persónulega hagi fólks. Til dæmis má í mörgum tilfellum ráða af skattskránum hvers efnis samningar manna við vinnuveitendur sína eru en fáir flagga samningum sínum um kaup og kjör að fyrra bragði. Mörg fyrirtæki taka einnig loforð af mönnum um að þeir ræði ekki kjör sín við aðra þar sem það geti spillt fyrir starfsanda á vinnustað. Það er auðvitað ekki neitt sem segir að allir eigi að geta hnýst í samninga tveggja aðila enda er um einkalíf einkalíf manna að ræða. Ef við föllumst á það sjónarmið að einhver réttur til upplýsinga sé æðri einkalífi fólks verður ekki stöðvast við upplýsingar um tekjur fólks heldur munu skattframtöl, sakaskrár og læknaskýrslur einnig verða birtar. Og af hverju ekki að birta bankareikninga og greiðslukortareikninga fólks? Þá geta menn séð hvort aðrir eru að eyða meiru en þeir afla samkvæmt skattskránni? Væri þá ekki hið svonefnda aðhald, sem menn vilja meina að birting álagningarskránna sé, fullkomnað?
Það vekur athygli hversu margir fastir liðir eins og venjulega eru á listum fjölmiðla…
yfir tekjuhæstu menn landsins. Flestir eru forstjórar í rótgrónum fyrirtækjum. Bendir þetta ef til vill til þess að erfitt sé fyrir nýja athafnamenn að ná góðum árangri? Getur verið að hinir háu skattar sem hér eru haldi nýgræðingnum niðri? Í gær var einmitt bent á það hér í blaðinu að háir skattar séu rótgrónum og stórum fyrirtækjum ekki endilega óhagstæðir, þeir virki sem hindranir fyrir aukinni samkeppni frá nýjum fyrirtækjum. Það er önnur hlið á sama máli að tekjuhæstu menn landsins komi nær undantekningarlaust úr rótgrónum fyrirtækjum.
Í vikuritinu Vísbendingu í síðustu viku er hugleiðing….
um skattkerfið. Þar sagði m.a.: Álagningarskrár skatta gefa til kynna að ríkissjóður hafi haft heldur meira upp úr krafsinu frá fyrirtækjum í þetta skiptið en við var búist. Það er athyglisvert að ár eftir ár hafa skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum vaxið eftir að ákveðið var að lækka álagningarprósentuna í 33%. Auðvitað valda betri skilyrði í þjóðfélaginu almennt miklu um, en lykilhlutverk leikur þó ákvörðun ríkisstjórnarinnar á sínum tíma að lækka álagningarprósentuna um nálægt tíu prósentustig.