Fimmtudagur 14. ágúst 1997

226. tbl. 1. árg.

Eitt af því sem vitringarnir í höfuðstöðvum Evrópusambandsins…
hafa komist að er að bil frá gólfi og upp í skilrúm milli salerna má ekki vera meira en 15cm. Um þetta hefur að sjálfsögðu verið gefin út tilskipun enda ótækt ef bilið væri t.d. 16cm og menn gætu gægst undir skilrúmið sér til yndisauka. Nú má sjálfsagt velta því fyrir sér hvernig þeir komust að þessari niðurstöðu þarna í Brussel. Vafalaust hefur einhver fengið styrk úr sjóðum sambandsins til að gera ítarlega rannsókn á því hversu stórt gapið má vera án þess að hægt sé með góðu móti að kíkja á næsta mann hægja sér. Og eflaust hefur hinn staðlaði evrópubúi verið kallaður á vettvang til prófana – þessi sem notar staðlaða evrópusmokkinn og verður illt af því að eta bognar gúrkur.

Á bernskuárum Ríkissjónvarpsins mun gjarna hafa verið gripið…
til þess ráðs að sjónvarpa úr fiskabúri þegar afsakið-hlé varð á dagskrá eða annað uppfyllingarefni skorti. Þeir sem muna eftir þessum ágæta dagskrárlið hafa hugsað til hans með söknuði nú í sumar enda hefur dagskrá Ríkissjónvarpsins ekki verið upp á marga fiska. Þeir sem telja réttilega að afnema eigi skylduáskrift að Ríkisútvarpinu hljóta hins vegar að gleðjast yfir því hve hörmulega stofnuninni gengur að sinna þörfum hlustenda og áhorfenda enda er engu líkara en hún grátbiðji um að verða lögð niður.