Í miðborg Reykjavíkur í gær var verið að selja vikublaðið…
The Militant á 150 krónur en verðið fyrir Ísland og önnur átta helstu markaðslönd þess kemur fram í haus blaðsins. Í hausnum segir einnig að The Militant sé sósíalískt vikublað gefið út með hagsmuni verkafólks í huga. Þætti mörgum sem nú væri komin á það nægileg reynsla hve vel sósíalismi og hagsmunir verkafólks fara saman og hún benti ekki til þess að það væri góð blanda. En The Militant er augljóslega annarrar skoðunar. Við lestur blaðsins kemur í ljós að The Militant hefur mestar áhyggjur af heimsvaldasinnum. Í þeim hópi eru bæði Tony Blair, Bill Clinton, stríðsglæpadómstóllinn í Hag og síðast en ekki síst Sali Berisha, fráfarandi forseti Albaníu! The Militant er sérstaklega í nöp við að friðargæsluliðar á vegum NATÓ skuli eltast við serbneska stríðsglæpamenn í Bosníu og af skrifum blaðsins að dæma efast það um að serbneskir þjóðernissósíalistar undir forsæti sósíalistans Milosevich hafi reynt að myrða múslímska borgara Bosníu með skipulögðum hætti. Þeir sem misstu af boðskap gamla Þjóðviljans og vilja taka þátt í baráttunni gegn ,,heimsvaldasinnum á borð við Blair og Berisha geta sent 5.000 krónur á Klapparstíg 26 (þó ekki á Cafe List sem er þar til húsa) og fá þá The Militant vikulega í heilt ár. Úff! Menn geta einnig haft samband um netfangið gphssg@treknet.is sem gefið er upp í The Militant. Góða skemmtun…
Laugardagur 2. ágúst 1997
214. tbl. 1. árg.