Verðsamráð og fákeppni…
er vinsælt umræðuefni í seinni tíð og oft virðast fjölmiðlamenn og aðrir leggja þetta tvennt að jöfnu. Í athyglisverðri grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær bendir Jónas Fr. Jónsson lögfræðingur á að fákeppni jafngildi ekki samráði og að þótt verð sé svipað á fákeppnismarkaði þurfi það ekki að þýða að samráð eigi sér stað heldur sé það oft til marks um skynsamlega hegðun fyrirtækja á slíkum markaði. Fyrirtæki á fákeppnismarkaði keppi oft í öðru en verði eins og þjónustu, gæðum og svo framvegis. Jónas segir að árangursríkasta aðferðin til að ná fram kostum virkrar samkeppni á fákeppnismarkaði sé að sjá til þess að viðskiptafrelsi ríki á viðkomandi markaði, ekki sé um neinar opinberar aðgengistakmarkanir og opinber afskipti af verðlaginu séu sem minnstar. Þannig aukist svigrúm til verðsamkeppni og líkur á að nýir aðilar komi inn á markaðinn.
Skattar á bensín…
eru stærstur hluti bensínverðs hérlendis og í samræmi við það sem fjallað er um hér að ofan eiga afskipti hins opinbera því stóran þátt í svipuðu verði olíufélaganna. Þær tíu þúsund milljónir sem almenningur greiðir árlega til ríkisins fyrir að fá að aka bíl valda miklum búsifjum, bæði beint þegar þær eru greiddar ríkinu og óbeint með minni verðsamkeppni milli olíufélaganna.