Ekki virðist síður góðæri hjá ríkisvaldinu…
en í atvinnulífinu. Ágætt dæmi um þetta er lenging skólaársins í framhaldsskólum. Annað dæmi er útgáfa Ríkisútvarpsins á netdagblaði sem hófst nú í vikunni. Hér er um að ræða fréttir og aðrar upplýsingar úr svonefndu textavarpi ríkissjónvarpsins. Ýmsir hafa reynt fyrir sér með daglega útgáfu hér á netinu og gengið misjafnlega. Er óhætt að segja að koma Ríkisútvarpsins á þennan vettvang eykur ekki líkurnar á að þeir einkaaðilar sem boðið hafa upp á fréttatengt efni á netinu á íslensku að undanförnu haldi því áfram. Ríkisútvarpið heyrir hins vegar undir menntamálaráðherra sem margsinnis hefur lýst velþóknun sinni á þeim möguleikum sem netið býður upp á. Það kemur óneitanlega spánskt fyrir sjónir að ráðherrann skuli senda Ríkisútvarpið á vefvang til að fækka þessum sömu möguleikum.
Nú hefur sameiningartákn þjóðarinnar, Ólafur Ragnar Grímsson, lokið…
við að ræða við Bandaríkjaforseta um störf sín innan Samtaka herstöðvaandstæðinga og er farinn til Íslendingabyggða í Kanada. Hafa fréttamenn þar eftir honum að mikilvægt sé að halda á lofti minningu þeirra Íslendinga er þangað fluttu á síðari hluta 19. aldar. Því miður kemur ekki fram í fréttum að forsetinn hafi minnst á þann mann er síðustu ár hefur mest gert til að minnast þessa fólks í gamla landinu, Böðvars Guðmundssonar rithöfundar. Metsölubækur hans tvær sem komu út fyrir tvenn síðustu jól byggja á sögu þessa fólks og á síðari árum hefur fátt vakið meiri athygli á örlögum þess en þær. Merkilegt er ef Ólafur Ragnar hefur gleymt Böðvari, þeir störfuðu nú í Alþýðubandalaginu á sama tíma og kynntust þar. Og þegar Ólafi tókst lokst að ná þar völdum orti Böðvar eina af sínum þekktustu vísum:
Úti á hjarni flokkur frýs,
fána sviptur rauðum.
Ólafur Ragnar Grímsson grís
gekk af honum dauðum.