Föstudagur 18. júlí 1997

199. tbl. 1. árg.

Ólögmæt gjaldtaka hins opinbera snertir ýmsa þætti þjóðlífsins…
ef marka má fréttir fjölmiðla. Hvað eftir annað kemur á daginn, að skattar, en þó einkum þjónustugjöld af ýmsu tagi, eru lögð á fyrirtæki eða einstaklinga án þess að gjaldtakan styðjist við fullnægjandi lagastoð, þrátt fyrir að slíkt sé nauðsynlegt í ljósi grundvallarreglna íslensks stjórnskipunarréttar. Þannig er þess skemmst að minnast, að dómur hefur nýlega fallið í Hæstarétti um endurkröfurétt fyrirtækis vegna sérstaks jöfnunargjalds sem lagt var á innfluttar franskar kartöflur fyrir nokkrum árum. Þar var sérstakur skattur lagður á innflytjendur þessarar vörur til að vernda innlenda framleiðslu. Þegar málið fór fyrir dómstóla komust þeir hins vegar að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða skattheimtu sem færi í bága við stjórnarskrá.

En dæmin eru fjölmörg. Síðastliðinn þriðjudag var til dæmis greint frá því að…
fjármálaráðuneyti teldi sig knúið til að breyta reglum um innheimtu stimpilgjalda vegna skuldbreytinga lána, þar sem umboðsmaður Alþingis hafði komist að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulag gjaldtökunnar væri ólögmætt. Talið er að fjölmargir aðilir eigi endurkröfurétt á ríkið vegna þessa máls og gæti þar verið um verulegar upphæðir að ræða þegar allt kemur saman.

En borgaryfirvöld eru lítið skárri og má í því sambandi benda á nýlegt…
álit umboðsmanns Alþingis vegna álagningar og innheimtu mengunar- og heilbrigðiseftirlitsgjalds á fyrirtæki í Reykjavík. R-listinn lagði þetta gjald á í ársbyrjun 1995 og sinnti engu viðvörunum talsmanna atvinnulífsins, sem strax í upphafi bentu á að um ólögmæta gjaldtöku væri að ræða. Verslunarráð og Vinnuveitendasambandið leituðu til umboðsmanns vegna málsins og komst hann nú á dögunum að þeirri niðurstöðu, að þessi gjaldtaka borgarinnar væri haldin verulegum annmörkum. Ætla má að þessi niðurstaða leiði til þess að atvinnulífið krefjist afnáms eða a.m.k. endurskoðunar gjaldsins, auk þess sem fjöldi fyrirtækja mun leita réttar síns til að fá ofgreidd gjöld undanfarinna ára endurgreidd.