Í frétt á baksíðu Morgunblaðsins…
í gær sagði: Bensín lækkaði í verði í gær um tæp 2% hjá olíufélögunum. Hið sanna er að olíufélögin lækkuðu sinn hluta bensínverðsins um hér um bil 10% en ríkið, sem hirðir 60 – 80% eldsneytisverðs, hélt óbreyttri álagningu. Svigrúmið til verðbreytinga er auðvitað lítið á meðan ríkið skammtar sér svo ríkulega af bensíndropanum.
Þá vekur það furðu hve oft (frétta)menn fárast yfir því að sama verð sé á sömu vöru hjá öllum olíufélögunum. Hefðu þessir menn þá orðið ánægðir ef aðeins eitt olíufélaganna hefði lækkað verðið í fyrradag? Eða ef eitt þeirra hefði hækkað verðið? Þá væru komin misjöfn verð! Markmiðið með samkeppni er auðvitað að halda verði niðri en ekki endilega að kalla fram mismunandi verð.
Í Alþýðublaðinu í fyrradag kemur fram að Jón Baldvin Hannibalsson alþingismaður…
þorði ekki að mæta Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor í umræðuþætti á Rás 2 um vinstri sveiflu í Evrópu. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Jón Baldvin og stuðningsmenn hans hafa ætíð haldið því fram að hann sé maður sem þori. Í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar 1991 skoraði Jón Baldvin á efstu menn á lista sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að mæta sér á kappræðufundi í Reykjavík. Davíð Oddsson sinnti ekki boðinu enda hefði hann þá einnig þurft að hitta formenn allra hinna smáflokkanna og flokksbrotanna á sérstökum fundum. Jón Baldvin lét þá slá því upp ástríðsletri á forsíðu Alþýðublaðsins að Davíð þyrði ekki að mæta sér. Nú þorir Jón Baldvin ekki í Hannes. Hvað hefur breyst?