Hjálmar Blöndal Guðjónsson ritar grein  í Morgunblaðið í gær… 
um einkarekstur og framhaldsskóla. Í  greininni segir m.a.: Í dag er ekki rætt um rekstrarform  menntaskólanna, heldur hvort kenna eigi ensku á undan dönsku  og hvort eitthvert tiltekið próf hafi verið þungt eða létt.  Slík umræða á vitaskuld rétt á sér en hún sker ekki úr  um hvort Ísland lendir fyrir ofan eða neðan Singapore í  næstu alþjóðlegu könnun. Úrskurðaraðilinn í þeim efnum  er hvort og þá hvenær menntastofnanir verða færðar í  breytt rekstrarform. Fyrsta skrefið sem yrði að stíga í  þessum efnum, er markaðsvæðing framhaldsskólanna.
Og áfram ritar Hjálmar: “Fyrir 40  árum setti Milton Friedman,… 
nóbelsverðlaunahafi í hagfræði,  fram tillögur að sk. ávísanakerfi (voucher  system) í ritgerð sinni The Role of Government in  Education”. Hugmynd Friedmans felst í því að skólar  væru einkareknir en ríkið veitti nemendum tilheyrandi styrk  sem þeir gætu notað til greiðslu skólagjalda. Þannig yrði  tryggt að hver nemandi ætti vísa skólavist óháð  fjárhagslegri stöðu sinni. Með þessu kerfi myndu íslenskir  framhaldsskólar þurfa að standa í samkeppni hver við annan,  bæði hvað varðar lægra verð og með því að bjóða upp  á góða aðstöðu, gott starfsfólk o.s.frv.
Kvikmyndin Brazil verður sýnd á Stöð 2  í kvöld. Þetta er kostuleg mynd… 
frá 1985 í leikstjórn Terry Gilliam  með Robert De Niro, Jonathan Pryce og Kim Greist í  aðalhlutverkum. Myndin segir frá framtíðarríkinu Brazil. Í  stað þess að ganga eins og klukka er miðstýrt kerfið í  Brazil hreinasta martröð; endalaust pappírsflóð, geggjuð  skriffinnska, sífelldar persónunjósnir, óáreiðanleg  þjónusta og þó að allt sé á niðurleið veit enginn hvað  snýr upp og hvað niður. Ekkert virkar, ekki frekar en í  öðrum ríkjum félagshyggjunnar. Eina leiðin til að fá  eitthvað gert er að leita á svarta markaðinn, sem Robert De  Niro er fulltrúi fyrir, en skrifræðisþrælar ríkisins kalla  hryðjuverkamann þar sem hann fer um og leysir vandamál fólks  á meðan starfmenn ríkisins senda eyðublöð frá einum til  annars. Ekki er laust við að manni létti eftir að hafa horft  á þessa mynd: Hljóta ekki öll fáránlegu ríkisbáknin að  grafa sína eigin gröf?