Í fréttum í vikunni hefur verið sagt frá því að einhver stráði…
45 kílóum af gamalli íslenskri mynt á Ölfusárbrúna á mánudagsmorguninn. Þetta spaugilega atvik minnir okkur á að íslenska krónan hefur rýrnað verulega undanfarna áratugi. Árið 1988 þurfti til dæmis 560 krónur til að kaupa vöru sem kostaði 1 krónu árið 1960. Með öðrum orðum hafa útgefendur myntarinnar, íslenska ríkið, svikið notendur hennar með einstökum hætti og komist upp með það enda hefur ríkið lögvarða einokun á útgáfu gjaldmiðils. Andstætt því sem menn kunna að halda geymir sagan og samtíminn mörg dæmi um að einkaaðildar hefi gefið út peninga. Þannig er t.d. í Hong Kong í dag þar sem tveir einkabankar gefa út gjaldmiðil sem að vísu er miðaður við gengi Bandaríkjadals. Ríkisreknir seðlabankar urðu auðvitað til af því að seðlaprentun er fljótleg leið til að ræna fólk og stjórnmálamenn eru fljótir að þefa slíkar leiðir uppi. Þegar ríkisstjórnir setja prentvélarnar af stað og auka framboð peninga falla þeir í verði
Óli Björn Kárason ritaði grein um einokun ríkisins…
á útgáfu peninga í Frelsið árið 1989. Þar sagði m.a.: Andstæðingar samkeppni í peningaútgáfu hafa aldrei hrakið þær fullyrðingar að lögmál markaðarins gildi jafnt um peninga og aðrar vörur. Ef það er rétt að samkeppni á vörumarkaði tryggi best góð lífskjör, því ættu önnur lögmál að gilda um peningamarkaðinn? Alveg eins og hagur sparifjáreigenda og lántakenda er best tryggður þegar samkeppni ríkir á milli banka og annarra fjármálastofnana, er hag almennings best borgið þegar hann getur valið á milli peninga. Eða heldur einhver því fram að ríkisvaldið hefði hagað sér eins í stjórnun peningamála ef Íslendingar hefðu verið frjálsir af því að velja á milli krónunnar og annarra gjaldmiðla? Stjórnvöld geta aðeins notað prentvélarnar og þar með skert verðgildi peninga í skjóli einokunar.