Föstudagur 16. maí 1997

136. tbl. 1. árg.

Það kom fram hjá sjálfræðisandstæðingum unglinga á þingi í fyrradag,…
að ein veigamesta ástæðan fyrir því að rétt sé að hækka sjálfræðisaldur íslenskra ungmenna væri að í svokölluðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna væru börn talin allir unglingar að 18 ára aldri. Þetta væri mjög slæmt ósamræmi sem yrði að laga. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. Í sáttmálanum er talað um að barn teljist hver sá sem ekki hafi náð 18 ára aldri, en svo er bætt við: nema hann verði fyrr sjálfráða samkvæmt þeim lögum sem hann lýtur. Sem sagt, það er beinlínis gert ráð fyrir því í samningnum að mismunandi reglur geti gilt um þessi mál. Og jafnvel þó það væri rétt að í þessum samningi væru allir yngri en 18 ára undantekningarlaust taldir börn, þá mætti benda forgöngumönnum um almennar sjálfræðissviptingar, t.d. Sólveigu Pétursdóttur, formanni allsherjarnefndar, á það, að hugtakið barn er skilgreint með ýmsum hætti í lögum. Það verður forvitnilegt að sjá hvað nefndarformaðurinn gerir þegar hún uppgötvar t.d.að í erfðalögum telst hver sá, sem á foreldra á lífi, vera barn. Það gætu orðið víðtækar sjálfræðissviptingar þegar hún áttar sig á þessu. Allt til að gæta samræmis!

Í fyrradag átti afmæli sameiningartákn þjóðarinnar,…
Ólafur Ragnar Grímsson. Því miður virtist flest hafa haft sinn vanagang í þjóðfélaginu þann dag þrátt fyrir þennan merkisatburð. Svo virðist sem almenningur hafi ekki áttað sig á því hvaða dagur var. Að minnsta kosti var afmælisbarninu ekki sýndur nægilega mikill sómi. Þykir því rétt að heiðra forsetann þó seint sé. Þar sem að við og þjóðin öll vitum að Ólafur Ragnar er kunnur ljóðaunnandi og listavinur teljum við okkur best geta glatt hann með því að birta, honum til heiðurs, eitthvert sýnishorn úr verkum íslensks stórskálds. Af handahófi höfum við valið hluta úr ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og sendum hr. Ólafi Ragnari hann með djúpri virðingu:

Furstinn

Vor öld vill eiga fursta
en engan frjálsan mann
og sá mun svikinn verða
sem sannleikanum ann.
Því þykir augljóst orðið
að öllum henti best,
að gera þá að guðum
sem geta logið mest.

Í slíku réttarríki
er ráðum furstans hlýtt.
Hans orð er opinberun
hans áform stórt og nýtt.
Hann setur svip á landið
og sannar hverri byggð,
að undirlægjueðlið
sé æðsta höfuðdyggð.

Í þágu hans á þjóðin
að þegja og vera til.
Það hefnir sín að heimta
af honum reikningsskil.
Hann hefur vopn og vígi
og veitist furðu létt
að tjá með eigin orðum
hvað er og verður rétt.