Fimmtudagur 15. maí 1997

135. tbl. 1. árg.

HÁDEGISVERÐURINN ER ALDREI ÓKEYPIS,…
heitir ný bók eftir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor. Á bókarkápu segir: „Þegar mennirnir voru reknir út úr aldingarðinum Eden, tók lögmál skortsins gildi. Í þessari bók segir dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson frá stjórnmálahagfræðinni, sem leitar hins hagkvæmasta skipulags í ljósi skortsins. Hann lýsir ósýnilegri hendi Adams Smiths, kenningu Friðriks von Hayeks um samkeppni og séreign, kröfu Karls Marx um öreigabyltingu og deilum hagfræðinga eins og Johns Maynards Keyness og Miltons Friedmans um hagstjórn og hagskipulag. Hann tengir rökræður þeirra og íslenskra menntamanna við brýnustu úrlausnarefni jarðarbúa: Hvernig á að koma í veg fyrir sóun náttúruauðlinda? Er sú tekjuskipting, sem hlýst af frjálsum viðskiptum, viðunandi? Hvert er hlutskipti kvenna og ýmissa minnihlutahópa á markaðnum? Hvernig geta fátækar þjóðir í suðri orðið bjargálna? Þrír kaflar um íslensk mál hljóta að þykja forvitnilegir, um skipan peningamála á Íslandi, fyrirkomulag fiskveiða við strendur landsins og upphaf, reglur og fall íslenska þjóðveldisins.“

Svo virðist sem R-listinn sé búinn að taka völdin…
á Alþingi. Við aðra umræðu á Alþingi í gær var samþykkt að hækka sjálfræðisaldur úr 16 árum í 18. Atkvæði féllu 37 gegn 20. Átta þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði með hækkuninni og einn sat hjá. Ef þessir þingmenn hefðu greitt atkvæði gegn tillögunni um að hækka sjálfræðisaldurinn hefði hún verið felld. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem gengu í lið með forræðishyggjuliðnu heita: Arnbjörg Sveinsdóttir, arnbjorg@althingi.is, Einar K. Guðfinnsson, einarg@althingi.is, Einar Oddur Kristjánsson, einar@althingi.is, Geir H. Haarde, geir@althingi.is, Kristján Pálsson, kristjan@althingi.is, Sólveig Pétursdóttir, solveigp@althingi.is, Vilhjálmur Egilsson, vilhjalmur@chamber.is og Þorsteinn Pálsson. Það var Egill Jónsson sem sat hjá.

Það er sérstaklega undarlegt að sjá nafn Vilhjálms Egilssonar á þessum lista, í ljósi þess hve ötullega hann hefur barist fyrir einstaklingsfrelsi á efnahagssviðinu. Vilhjálmur er 5. þingmaður Norðurlands kjördæmis vestra. Hinum þingmanni flokksins í sama kjördæmi, Hjálmari Jónssyni, fórust svo orð til varnar sjálfræði íslenskra ungmenna úr ræðustól á Alþingi í gær: „Lögræðislögin snúast um mannréttindi en þessi breytingartillaga frá stjórnarfrumvarpinu gengur í þver-öfuga átt. Það er sjaldgæft að fólk á aldrinum sextán til átján ára sé svipt sjálfræði með dómi sem er tiltölulega einföld og fljótleg leið ef svo illa þarf að vera komið að slík aðgerð sé nauðsynleg. Það er minna en eitt tilfelli á ári þar sem þarf að svipta sjálfræði eitt af hverjum fjórum þúsundum á tíu árum eru það átta af fjörutíu þúsund. Börn vinna ekki sér til óbóta á Íslandi heldur til bóta. Þau vaxa upp til ábyrgðar í íslensku samfélagi í áföngum allt frá fermingaraldri. Það hefur gefist vel og við eigum fallega og efnilega æsku á Íslandi í dag. Þegar og þar sem út af bregður þarf að leysa málin með sérstökum aðgerðum í stað þess að svipta heila árganga ungs fólks sjálfræði sínu. Ég segi nei við hækkun sjálfræðisaldurs.“

Annar ötull stuðningsmaður einstaklingsfrelsis stóð sig öllu betur en Vilhjálmur í þessu máli. Pétur H. Blöndal skýrði atkvæði sitt með þessum hætti: „Herra forseti. Enn einu sinni á að refsa þeim sem hegða sér vel fyrir hina sem hegða sér illa. Það á að svipta átta þúsund íslensk ungmenni sjálfræðinu vegna nokkurra tuga sem eiga í vandræðum. Hér er á ferðinni forræðishyggja félagshyggjufólks sem vilja helst skipuleggja líf einstaklingsins frá vöggu til grafar og helst heilu þjóðfélögin líka eins og þekkt er. Ég er á móti þessu – ég vil frelsi einstaklingsins. Ég tel íslensk ungmenni séu frjálslegri, ábyrgari og duglegri en jafnaldrar þeirra víða um lönd. Við lifum í sögulegri hefð um að íslensk ungmenni verði sjálfráða sextán ára. Þannig vil ég hafa þau áfram. Ég segi nei.“

Þrátt fyrir að formaður þingflokks Sjálfstæðismanna hafi á sorglegan hátt gengið úr skaftinu við atkvæðagreiðsluna í gær, lét varformaður þingflokksins ekki deigan síga. Sigríður Anna Þórðardóttir gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu: „Herra forseti. Ég er andvíg því að sjálfræðisaldur verði færður í átján ár. Ég vil ekki svipta ungt fólk rétti sem það hefur haft til þessa og ég tel það stórt spor aftur á bak í mannréttindum á Íslandi ef tillagan verður samþykkt. Við leysum ekki vanda þeirra ungmenna sem hafa leiðst á braut vímuefna og afbrota með hækkun sjálfræðisaldurs. Það hljótum við að gera á annan hátt. Til dæmis með því að kenna börnum okkar að standa á eigin fótum og taka ábyrgð á eigin lífi. Það er engin ástæða til að hækka sjálfræðisaldur hér á landi þó aðrar þjóðir hafi gert það. Við eigum að halda sérstöðu okkar í þessu efni. Engin svo veigamikil rök hafa komið fram í málinu að þau réttlæti þessa breytingu. Ég segi nei.“

Ef til vill náði Katrín Fjeldsted að orða með bestum hætti skoðanir sjálfstæðismanna í þessu máli þegar hún gerði grein fyrir sínu atkvæði í gær: „Herra forseti. Þjóðfélag okkar byggir á frelsi einstaklingsins og ég tel mikilvægt að ungt fólk skynji að löggjafi landsins Alþingi Íslendinga viðurkenni að það sé fært um að sjá fótum sínum forráð. Enda sýnir sagan að ungu fólki er treystandi. Ég segi því nei herra forseti.“

Katrín á þó í samkeppni um þann heiður við framsóknarþingmanninn Ólaf Þ. Þórðarson. Honum mæltist svo: „Herra forseti. Hér er verið að leggja til skerðingu mannréttinda og stærstu hóprefsingu sögunnar sem ég hef vitað til að hafi verið framkvæmd í þessu landi. Ég segi nei.“

Halldór Blöndal, samgönguráðherra, benti á að í greinargerð með hinni illkynjuðu breytingartillögu er undirstungið að í kjölfar sjálfræðissviptingar yrðu íslensk ungmenni einnig svipt rétti til frádráttar frá tekjuskatti í formi persónuafsláttar: „Herra forseti. Í athugasemdum með frumvarpi þessu er tekið sérstaklega fram að ef sjálfræðisaldur verði færður upp þá sé talið eðlilegt að taka einnig til athugunar að 6. gr. skattalaga um tekju- og eignaskatt verði breytt á þann veg að börn verði sjálfstæðir skattaðilar við átján ára aldur í stað sextán ára eins og nú er. Þetta felur í sér mikla skattahækkun á þá unglinga út um land sem fara á sjóinn sextán og sautján ára ef slíkt yrði samþykkt (frammíköll) … Ég hefði kosið að þetta mál væri athugað nánar milli annarrar og þriðju umræðu þar sem þessi breytingartillaga var ekki dregin til baka til þess að mér ynnist tími til að kanna viðhorf nefndarinnar til þessa atriðis þá segi ég nei.“