Föstudagur 11. apríl 1997

101. tbl. 1. árg.

Samkeppnisstofnun gerir sitt besta þessa dagana…
til að tryggja sig í sessi sem ein óþarfasta stofnun landsins. Þegar hún hafði lokið við að ,,banna mönnum að auglýsa með tilteknum hætti tók hún sér fyrir hendur að setja Flugleiðum og Flugfélagi Norðurlands ,,skilyrði fyrir því að ,,hún samþykkti” samruna fyrirtækjanna. Allar þessar aðgerðir hennar byggja á þeim misskilningi ýmiss fólks, að þvingunarlaus samskipti einkaaðila séu eitthvað sem ríkið eigi eða megi skipta sér af. Raunar er það hjákátlegt að ríkið taki að sér að ,,tryggja frjálsa samkeppni. Eina ógnunin við frjálsa samkeppni eru sérleyfi sem ríkið veitir til atvinnustarfsemi. Hið eina sem ríkið á að gera í samkeppnismálum er að afnema sérleyfi sem gilda um marga atvinnustarfsemi, afnema rétt einstakra hópa eða fyrirtækja til að selja þjónustu á ýmsu sviði. Samkeppnisstofnun og ,,samkeppnislögin sem hún þykist starfa eftir byggja á misskilningi. Það er ekki hlutverk ríkisins að ,,tryggja samkeppni, heldur ber ríkinu að láta sér nægja að banna hana ekki. Það er misskilningur að ríkið eigi að bregðast við einhverri ,,markaðsráðandi aðstöðu fyrirtækja. Sé aðgangur að greininni frjáls er ekkert við því að segja ef fyrirtæki hefur með heiðarlegum viðskiptum sínum náð svo sterkri stöðu á tilteknum markaði að önnur fyrirtæki telji sig ekki hagnast á samkeppni við það. Enda ná menn sterkri stöðu með því að fyrirtæki þeirra nýtur vinsælda neytenda. Af hverju er ríkið með Samkeppnisstofnun í broddi fylkingar að amast við vinsælum fyrirtækjum?

Trúlega eru lífeyrissjóðamálin og einkavæðing á fjármagnsmarkaði…
mikilvægustu málefni Alþingis nú í vor, og jafnvel þótt til lengri tíma væri litið. Annars vegar þarf að draga verulega úr gríðarlegum umsvifum ríkisins í fjármálaþjónustu og hins vegar þarf að tryggja aukna hagkvæmni og valfrelsi í lífeyrismálunum. Í upphafi virtist svo sem ríkisstjórnin ætlaði að stíga mikilvæg skref í þessum málaflokkum, en full ástæða virðist nú til að ætla, að engar breytingar sem máli skipta verði gerðar að þessu sinni. Nú er útlit fyrir að afturhaldsarmurinn í Framsóknarflokknum (kannski flokkurinn allur?) muni fá því framgengt að ekki megi selja neitt af núverandi eignarhluta ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka næstu fjögur árin (heldur verði aðeins heimilt að bæta við nýju hlutafé frá einkaaðilum) og að í stað einkavæðingar fjárfestingalánasjóða komi stofnun nýs fjárfestingabanka í ríkiseigu. Í lífeyrismálum virðist hagsmunagæsluaðilum í ASÍ og VSÍ hafa tekist að framlengja skylduaðild alls þorra launþega að tilteknum lífeyrissjóðum, með þeim afleiðingum að þess getur orðið langt að bíða áður en aðstæður skapast fyrir valfrelsi og samkeppni í þessum geira. Það hlýtur að valda hinum frjálslyndari þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins miklum vonbrigðum ef fram fer sem horfir í þessum málum, og spurning hvernig þeir hyggjast réttlæta uppgjöf sína fyrir kjósendum í næstu prófkjörum og kosningum.