Ný afstaðið mjólkurverkfall minnti menn á þá staðreynd…
að mjólkurvinnsla er ekki frjáls hér á landi og hefur ekki verið í 63 ár. Árið 1934 setti nefnilega ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks bráðabirgðalög um mjólkursölu þrátt fyrir harða mótspyrnu þingmanna Sjálfstæðisflokksins úr Reykjavík. Með lögunum var komið á einokun á sölu mjólkur. Bændum skyldi ekki lengur vera frjálst að selja mjólk sína eins og þeim hentaði heldur var sölusamtökum fenginn einkaréttur til mjólkursölu á sérstökum verðjöfnunarsvæðum. Þessi lög voru upphafið á þeirri einokun í mjólkursölu sem enn er við lýði og Guðmundur Bjarnason, landbúnaðaráðherra, treysti í sessi á síðasta ári þegar mjólkurvinnsla var aflögð í Borgarnesi og Mjólkursamsölunni í Reykjavík fenginn framleiðslurétturinn. Til að úrelda mjólkurbúið í Borgarnesi voru teknar litlar 200 milljónir króna af skattfé. Fyrirtækið Sól hf. í Reykjavík hafði hins vegar boðist til að koma inn í mjólkurvinnsluna í Borgarnesi án þess að það kostaði skattgreiðendur krónu.
Aðgerð Guðmundar Bjarnasonar var einkar athyglisverð…
fyrir þá fjölmörgu íbúa höfuðborgarsvæðisins sem greiddu Framsóknarflokknum atkvæði sitt í nýafstöðnum Alþingiskosningum. Þrátt fyrir að yfirbragð flokksins hafi breyst þá virðast taugarnar til gömlu framsóknarstefnunnar en til staðar. Hagsmunir almennings, neytenda og skattgreiðenda eru látnir víkja fyrir hagsmunum kaupfélaga og mjólkursamlaga. Á hitt má svo benda að hvorki Viðreisnarstjórnir né Viðeyjarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks gerðu tilraun til að afnema þessa einokun. En það eru ekki aðeins íbúar höfuðborgarsvæðisins sem tapa á mjólkueinokuninni. Fólk á landsbyggðinni neytir einnig mjólkurafurða og þar vinna hlutfallslega fleiri við vinnslu mjólkur en á höfuðborgarsvæðinu. Einokunin hefur auðvitað stöðnun og framtaksleysi í för með sér enda verða menn værukærir í svo vernduðu umhverfi. Störf í greininni eru því sennilega færri en ella.