Miðvikudagur 26. mars 1997

85. tbl. 1. árg.

Af trúarástæðum er fyrirtækjum meinað að veita hefðbundna…
þjónustu nokkra daga á ári hverju. Það á t.d. við um Páskana sem fram undan eru. Að vísu hefur kvarnast úr þessu banni á undanförnum árum enda lætur fólk ekki lengur ráðskast með sig með þessum hætti. Páskarnir eru ekki hátíð allra trúarbragða og bann við atvinnustarfsemi á þeim forsendum að um hátíð ákveðins trúarhóps sé að ræða hlýtur að orka tvímælis gagnvart trúfrelsi. Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt fyrir þá sem vilja halda Páskana eða aðra hátíðardaga hátíðlega að loka fyrirtækjum sínum og gefa frí. Það er þeirra mál og sjálfsagt að sýna fólki fulla tillitssemi við iðkun trúarbragða sinna.
Lesendum er bent á að VEF//ÞJÓÐ//VILJINN kemur út alla frídagana sem framundan eru.

Því er oft haldið fram að námslán í dag séu lakari fyrir…
lánþega en fyrir tveimur áratugum. Þessu er m.a. haldið fram í skýrslu Dags Eggertssonar fyrir Stúdentaráð síðasta haust og áður hefur verið getið hér í blaðinu. Árið 1975 var mánaðarlegt framfærslulán hjá LÍN 27.000 krónur á verðlagi 1996. Það er rétt að stór hluti þessara lána, sem voru óverðtryggð en báru 5% vexti, brann upp á verðbólgubálinu en eftir stendur að styrkurinn sem lánþegar fengu var þá varla meiri en þessar 27.000 krónur. Í dag getur einstaklingur sem stundar nám hérlendis fengið 54.000 krónur í framfærslulán en fjölskyldufólk og námsmenn erlendis fá meira. Það er staðreynd að ríkið niðurgreiðir þessi lán um 50% með niðurgreiðslu vaxta, affalla og annars kostnaðar. Í dag fá menn því mjög svipaðan ef ekki ívíð meiri stuðning en 1975.

Á forsíðu þessarar skýrslu er sagt að Ríkisendurskoðun…
hafi ,,yfirfarið efni skýrslunnar og er stofnuninni ,,þakkaðar gagnlegar ábendingar sem tekið var fullt tillit til. Varla er hægt að orða það skýrar að Ríkisendurskoðun sé sammála efni skýrslunnar enda sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, formaður Stúdentaráðs, í útvarpsviðtali að skýrslan hefði ,,stimpil Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun kom hins vegar hvergi nálægt gerð skýrslunnar þótt hún hafi lagt til gögn sem Dagur ýmist mistúlkaði eða misskildi. Stofnunin mun raunar hafa getið þess sérstaklega að óheimilt væri að nota nafn hennar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Dagur Eggertsson, beitir aðferðum af þessu tagi og er staðinn að ódrengskap. Hann átti sæti í starfshópi sem Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, skipaði og átti að gera grein fyrir áhrifum af nýjum lögum um LÍN. Rétt fyrir síðustu alþingiskosningar lét hann trúnaðarupplýsingar úr starfshópnum af hendi við fulltrúa allra flokka nema Sjálfstæðisflokks. Vart þarf að geta þess að Dagur mistúlkaði þessar trúnaðarupplýsingar út og suður. Hann lagði t.d. fjölda lánþega og fjölda námsmanna að jöfnu þótt þessum fyrrverandi formanni Stúdentaráðs, sem fékk á aðra milljón króna úr sjóðum Stúdentaráðs í eiginn vasa, ætti að vera það ljóst að stór hluti námsmanna tekur engin námslán.