Fimmtudagur 20. mars 1997

79. tbl. 1. árg.

Mikil óvissa er um hækkun hitastigs andrúmslofts Jarðarinnar,…
bæði hvort mannskepnan hefur áhrif þar á og hvort hugsanleg hækkun er til góðs eða ills, eins og bent er á í nýjasta tölublaði Economist. Engu að síður vilja margir fara út í kostnaðarsamar aðgerðir til að koma í veg fyrir notkun þeirra efna sem talið er að hafi áhrif til hækkunar hitastigsins, þ.e. kola, gass og olíu, og ríkisstjórnir hafa verið með stóryrtar yfirlýsingar um að draga úr notkuninni. Að mati Economist væru slíkar aðgerðir heimskulegar miðað við þá óvissu sem fyrir hendi er. Blaðið bendir jafnframt á eitt sem hægt er að gera til að draga úr notkuninni og jafnframt að spara fé, en það er að hætta niðurgreiðslum á þessum brennsluefnum. Niðurgreiðslurnar eru áætlaðar vera yfir 600 milljarðar dala og leiðir það til mikillar sóunar þessara efna. Eitt dæmi um þetta er Þýskaland, sem yfirleitt vill vera til fyrirmyndar í umhverfismálum, en niðurgreiðir kolaframleiðslu um 70%. Nú standa einmitt yfir harðar deilur þar í landi við 85.000 námaverkamenn sem krefjast þess að ríkisstjórnin hætti við niðurskurðartillögur sínar. Raunverulegir umhverfisverndarsinnar hljóta í þessu tilliti að taka höndum saman við þá sem berjast gegn niðurgreiðslum og byrja á að reyna að koma í veg fyrir þær áður en þeir fara að huga að dýrari kostum.

,,Upphlaup forystumanna verkalýðsfélaganna um helgina og stjórnarandstöðunnar…
á Alþingi í gær er eitt af því fáránlegasta, sem hér hefur gerzt í langan tíma. Talsmenn þessara aðila halda því fram, að með hugmyndum, sem uppi eru um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu sé verið að ,,skerða lífeyrisrétt launþega. Ekkert er fjarri sanni. Það er þvert á móti verið að auka rétt félagsmanna lífeyrissjóðanna til þess að hafa eitthvað að segja um meðferð eigin fjármuna, segir í leiðara Morgunblaðsin í fyrradag og er óhætt að mæla með því að fólk grafi upp blaðið og lesi þennan leiðara eins og hann leggur sig. Þeir sem fylgdust með umræðum á Alþingi um þessi mál í fyrradag geta tekið undir þessar skoðanir Moggans á stjórnarandstöðunni. Hún gerir sig seka um að vera á móti sjálfsögðu framfaramáli og var ömurlegt að sjá að þar fór fremstur í flokki maður sem ætti að vita betur, Ágúst Einarsson prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Stjórnarandstaðan vill samkvæmt þessum umræðum frekar að verkalýðs- og atvinnurekendur hafi umsjón með eignum launþega en launþegarnir sjálfir.

Verkalýðshreyfingin og félagshyggjuliðið á Alþingi telur þær breytingartillögur…
sem um er rætt hér að ofan vera atlögu að samtryggingarkerfi í lífeyrismálum. Það er rétt, en þó ekki í þeim skilningi sem þessir aðilar leggja í það. Tillögurnar eru atlaga að samtryggingu félagshyggjuaflanna á Alþingi og þeirra verkalýðs- og atvinnurekenda sem áfram vilja ráðskast með sparnað almennings í landinu og leika sér með digra sjóði án leyfis eigendanna.Viðskiptaprófessorinn og þingmaðurinn Ágúst Einarsson virðist því miður ætla sér að vera í hlutverki stjórnmálamannsins en ekki fræðimannsins í umræðum á Alþingi um löngu tímabærar breytingar á ríkisbönkunum í hlutafélög. Hann fór í gær mikinn í gagnrýni sinni á frumvarp viðskiptaráðherra og var greinilega að undirbúa það að hengja sig í tæknileg útfærsluatriði þegar að atkvæðagreiðslu kemur og vera á móti breytingunni. Loksins þegar ríkisstjórnin er komin fram með þetta frumvarp ætlar hann að líta framhjá aðalatriði málsins, sem er það að verið er að undirbúa einkavæðingu í fjármálakerfi landsins, en þvælast í staðinn fyrir með umræðum um fjölda bankastjóra, hámarkseignarhlutdeild og aðrar aðferðir sem beita hefði mátt við einkavæðinguna. Viðskiptaprófessorinn ætlar að stunda pólitískt vopnaskak í stað þess að taka þátt í að breyta viðskiptaumhverfinu á Íslandi til hins betra.