Það var merkileg frétt í Mogganum síðastliðinn…
föstudag. Þar var sagt frá því að forystumenn í reykvískum verkalýðsfélögum hyggðust núna eftir helgina fara vestur á land ,,sitja fyrir“ þeim er kynnu að hafa keypt sér mjólk í Búðardal, taka af þeim mjólkina og ,,hella henni niður”. Nú eru þessar ráðagerðir ekki það fréttnæma í sjálfu sér. Víða um borgina leggja misyndismenn á ráð um allskyns þjófnað og ofbeldi. Það er hins vegar merkilegt að menn geti greint frá slíkum áformum í dagblöðum án þess að uppistand verði. Skýringin er líklega sú að væntanlegir fyrirsátsmenn og niðurhellarar segjast vera að stöðva ,,verkfallsbrot“. Fjöldi manna virðist nefnilega ímynda sér að til sé glæpur sem heiti ,,verkfallsbrot”. Það er hins vegar mikill misskilningur. Jafnvel þó litið sé svo á að starfsmönnum fyrirtækja sé, að ýmsum formskilyrðum uppfylltum, heimilt að neita að sinna starfi sínu, ,,fara í verkfall“, veitir það þeim engan rétt til að banna öðrum starfsmönnum að mæta í vinnuna. Að ekki sé minnst á þá fásinnu að þeir geti tekið vöru af fólki sem hefur keypt hana af réttum eigendum. Það er kominn tími til að almenningur allur átti sig á því að það er enginn glæpur að mæta í vinnuna í verkfalli. Það er hins vegar glæpur að meina starfsmanni að sinna sínu starfi. Í íslenskum lögum er vitaskuld hvergi minnst á ,,verkfallsbrot”. Þar er hins vegar víða fjallað um líkamlegt ofbeldi, þjófnað og eignaspjöll.
Verkalýðsrekendur brugðust við með offorsi…
um helgina þegar spurðist út í Karphúsinu að ríkisstjórnin væri að undirbúa frumvarp til laga um lífeyrissjóði, þar sem valfrelsi launþega varðandi lífeyrissparnað væri aukið lítillega. Morgunblaðið birti í gær leiðara þar sem komið er að kjarna þessa máls. Bent er á að það sé hræsni af hálfu verkalýðsforystunnar að halda því fram, að með auknu valfrelsi sé verið að skerða lífeyrisrétt fólks og einnig er leitt getum að því að atvinnumennirnir í forystu launþegasamtakanna séu fyrst og fremst vernda eigin valdaaðstöðu með andstöðu við breytingar í núverandi fyrirkomulagi. Hér skal tekið undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins um að fólki eigi að vera í sjálfsvald sett hvar og hvernig það leggur fyrir til elliáranna. Það er óeðlilegt að fólk sé með lögum skyldað til þess að kaupa sér lífeyrisréttindi, en það er auðvitað enn fráleitara að fólk skuli ekki sjálft ráða því hjá hvaða fjármálafyrirtækjum slík réttindi eru keypt. Það er jafn fráleitt eins og ef Vesturbæingar væru skyldaðir til að kaupa bílatryggingar hjá Tryggingamiðstöðinni, Akureyringar hjá VÍS og Hafnfirðingar hjá Sjóvá- Almennum!
Lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna eru meðal allra stærstu…
fyrirtækja á fjármálamarkaði hérlendis, enda ekki að furða, því að tugþúsundir landsmanna eru skyldaðar til að versla við þá. Önnur fyrirtæki á fjármálamarkaði, bankar, tryggingarfélög og verðbréfasjóðir hafa sýnt því áhuga að bjóða upp á sambærilega þjónustu, en hafa í reynd verið útilokaðir frá stærstum hluta markaðarins með lögum og kjarasamningum. Hér er um að ræða grófa mismunun gagnvart þessum fjármálafyrirtækjum. Þegar bent er á þetta grípa talsmenn verkalýðsrekenda og aðrir hagsmunaaðilar hins vegar yfirleitt til þess að benda á, að lífeyrissjóðir séu ekki fyrirtæki eins og bankar eða verðbréfafyrirtæki, heldur einhvers konar samtök launafólks. Vel má vera að svo sé, en ef þannig er litið á málið felur núverandi lífeyrissjóðakerfi á Íslandi í sér mannréttindabrot. Á þetta reyndi fyrir Hæstarétti í haust, en þá komst meirihluti dómsins (3 af 5) að þeirri niðurstöðu, að skylduaðildin fæli ekki í sér brot á félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Tveir dómendur voru ósammála. Þessu máli hefur nú verið vísað til Mannréttindanefndar Evrópu í Strassborg, enda er afar mikilvægt að fá úr því skorið, hvort íslenska kerfið stangast á við félagafrelsisákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Gild rök eru til að ætla að svo sé, en minna má á að Mannréttindadómstóllinn í Strassborg komst að því fyrir nokkrum árum, að íslensk lög um skylduaðild leigubílstjóra að stéttarfélagi færu í bága við sáttmálann.