Þriðjudagur 18. mars 1997

77. tbl. 1. árg.

Einkennileg frétt barst bíleigendum…
á dögunum. Nú er þess krafist að þeir sem enn hafa eldra kerfi skráningarnúmera á bifreiðum sínum láti breyta því hið fyrsta, með tilheyrandi ónæði og kostnaði. Alveg er óskiljanlegt hver ber skaða af því að enn séu bifreiðar skráðar með hinu gamla kerfi. Sérstaklega þegar menn geta skráð svokallað einkanúmer á bifreiðar sínar. Á sama tíma og lögreglan eltist við þá sem aka á gömlum númerum geta menn brunað um á bílum með ,,númer eins og STEBBI, MAGGA og ÓLIGRÍS.

Þingmenn virðast stundum misskilja stöðu sína og völd,…
og telja sig geta haft áhrif á mál sem ekki er í þeirra valdi að taka á með neinum áþreifanlegum hætti. Þannig geta þingmenn, sem raunverulega vilja koma góðum málum áleiðis, beinlínis orðið broslegir, þegar þeir leggja til að Alþingi taki á málum, sem litlar líkur eru á að stofnunin geti á nokkurn hátt ráðið við. Dæmi um þetta er þingsályktunartillaga frá þingmönnum Kvennalistans, sem skora á forsætisráðherra að setja á stofn nefnd til að vinna að framgangi stefnu Sameinuðu þjóðanna um AFNÁM ofbeldis gegn konum! Enginn efast um að hér búi góður hugur að baki. Ofbeldi er af hinu illa og sama á auðvitað við um það ofbeldi, sem beinist að konum sérstaklega. Það er líka svo, að Íslendingar og aðrar siðmenntaðar þjóðir banna ofbeldi, hvort sem er manndráp, líkamsárásir eða kynferðisofbeldi, og hafa bannað um aldir. Samt hefur ekki verið hægt að útrýma þessu böli. Vart er við því að búast, að nefnd á vegum forsætisráðherra sé þess megnug að AFNEMA ofbeldi gegn konum, fyrst það hefur hvergi í heiminum tekist svo lengi sem sögur greina. Þannig er ekki ástæða til að ætla, að það breyti neinu fyrir þolendur ofbeldis eða ofbeldismennina sjálfa hvort umrædd þingsályktunartillaga verður samþykkt eða ekki. Eina sem breytist, nái hún fram að ganga, er að stofnuð verður ný nefnd til að ræða þessi mál, án þess að hægt sé að búast við að hún geti aðhafst nokkuð sem lögregla og dómstólar eru ekki að takast á við í dag. Tillaga um AFNÁM ofbeldis er þar að auki órökrétt og til þess fallin að vekja falskar væntingar, með nákvæmlega sama hætti og yfirlýsing borgarstjóra og dómsmálaráðherra um daginn um að gera Reykjavík að vímuefnalausri borg innan fárra ára. Menn geta verið á móti ofbeldi og vímuefnum og unnið að því að sporna við böli af þessu tagi, en þegar gefnar eru yfirlýsingar af þessu tagi gerist það eitt, að trúverðugleiki viðkomandi stjórnmálamanna bíður hnekki.

Haldið var upp á alþjóðlegan dag neytenda…
um síðustu helgi. Að því tilefni var rætt við Jóhannes Gunnarsson, framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna, í Morgunblaðinu á laugardaginn. Jóhannes segir í viðtalinu að sér reiknist til að stjórnvöld hérlendis leggi Neytendasamtökunum til 40 krónur á mann á ári og segir það minni stuðning en neytendasamtök annars staðar fái. Svo segir Jóhannes: ,,Það er auðvelt að færa rök fyrir því að vegna fæðar okkar þyrfti hlutfallslegur stuðningur að vera hærri en annars staðar. Þrátt fyrir að svo auðvelt sé að færa þessi rök fram kýs Jóhannes að gera það ekki.
Nokkur rök hníga einnig að því að ríkið eigi ekki að styrkja samtök neytenda og er bæði auðvelt að segjast ætla að færa þau fram og gera það. Flestir eru nú orðið sammála um að skæðasti óvinur neytenda er ríkisvaldið. Ekkert annað fyrirbæri hefur valdið neytendum öðrum eins búsifjum og ríkisvaldið með skattheimtu sinni, ríkisrekstri á ólíklegustu sviðum, reglugerðafargani, einokunarlögun, sérleyfum og innflutningshömlum. Er æskilegt að Neytendasamtökin verði fjárhagslega háð þessum skæðasta óvini neytenda? Og ef menn fallast á að ríkið eigi að styrkja ein samtök neytenda af hverju ekki öll samtök sem segjast berjast fyrir hagsmunum neytenda? Aukin ríkisútgjöld kalla einnig á aukna skattheimtu og Jóhannes ætti að vita að skattar eru stærsti frádráttarliðurinn í heimilisbókhaldi flestra. Vill hann stækka þann mínus?

Eitt þeirra mála sem Neytendasamtökin…
hafa barist fyrir er bann við því að gefa upp verð á vöru og þjónustu án skatta. Það tíðkast t.d. víða erlendis að skattur á vöru er reiknaður þegar fólk kemur að afgreiðlsuborði og borgar. Þannig sér fólk hvað skatturinn er hár og þetta er þarft aðhald gegn frekari skattheimtu. Íslensku neytendasamtökin hafa hins vegar barist gegn því að skatturinn sé gerður sýnilegur með þessum hætti. Hvort það tengist þeirri staðreynd að þau fá hluta skattsins og ætla sér stærri bita af honum skal ósagt látið.