Mánudagur 17. mars 1997

76. tbl. 1. árg.

Reglur um húsfriðun eru gott dæmi um það…
hvernig hið opinbera íþyngir einstaklingum. Þeir sem eiga gömul hús geta lent í því að þau séu friðuð og mega þá ekki láta rífa þau og jafnvel ekki einu sinni breyta þeim. Þetta þýðir að eign þessa fólks verður mun minna virði en ella væri og getur jafnvel orðið minna en einskis virði vegna þess að eigendurnir sleppa ekki við að borga fasteignagjöld og nauðsynlegasta viðhald, en fá engar tekjur af eigninni á móti. Þekktasta dæmið um þetta er líklega Fjalarkötturinn í Aðalstræti, sem lengi var mikil byrði á eiganda sínum. Það er vitaskuld óþolandi að hið opinbera sé að skipta sér af eignum manna með þessum hætti. Með slíkri afskiptasemi er það komið út fyrir eðlilegt verksvið sitt. Ef hið opinbera vill sinna einhverjum slíkum málum sem það telur horfa til heilla fyrir almenning, hlýtur lágmarkskrafan að vera sú, að það sé ekki bara einhver einn ,,ógæfumaður” sem látinn er bera kostnaðinn heldur allur almenningur.

Fjölgun opinberra starfsmanna…
hefur verið mikil á síðustu árum og áratugum bæði hérlendis og erlendis. Vandinn er ekki síst sá að háttsettum embættismönnum fer fjölgandi. Þannig hefur til að mynda frést frá hagstofu Þýskalands að þessum hópi hafi fjölgað um 50% frá 1983 á meðan opinberum starfsmönnum hafi á heildina litið ,,aðeins” fjölgað um 30%. Ástæður þessa munu vera þær, að þegar skipt er um ráðherra vill sá nýi hafa sína menn í toppstöðum til að hrinda stefnunni í framkvæmd, en illa gengur að losna við þá gömlu. Athyglisvert væri að sjá sambærilegar tölur fyrir Ísland, enda engin ástæða til að ætla að önnur lögmál gildi um skrifræðið hér en þar. Ein leið út úr þessum vanda væri að fjölga þeim starfsmönnum ráðuneytanna sem fylgja ráðherranum á kostnað hinna.

Ágætlega virðist stefna í sölu ríkisfyrirtækja…
þó að hraðar mætti ganga að hrinda einkavæðingunni í framkvæmd. Það kom því á óvart að ríkið skuli nú færa stórkostlega út kvíarnar með kaupum ríkisbankans Landsbanka Íslands á helmings eignarhluta í Vátryggingarfélagi Íslands. Eina réttlæting þessarar óvæntu ríkisvæðingar hlýtur að vera sá ásetningur stjórnvalda að rekstur þessa banka, sem og annarra banka í eigu ríkisins, verði þegar á þessu ári færður í hlutafélagaform og hlutaféð síðan selt á frjálsum markaði við fyrsta tækifæri. Ríkisvæðing VÍS er því brýn áminning um að nú skuli standa við stóru orðin og íslenskur fjármálamarkaður loksins leystur úr læðingi ríkiseignarhalds.