Erla Ingvarsdóttir ritar pistil í Vikublaðið, sem kom í hús…
á mánudaginn var og segir: ,,Landið mitt Ísland virðist oft vera staður þar sem spilling og ómannúðlegt gildismat þrífst betur en heilbrigð siðferðiskennd og virðing fyrir manneskjunni. Því miður. Auðvitað er þeim sem landið erfa best komið í daglegri umsjá þeirra sem geta lifað af launum sínum og í sátt við þau. Það er hneyksli að jafnmikilvæg störf og umönnun barna sé vanvirt með þeim hætti sem gert er. Heilbrigðir einstaklingar út í þjóðfélagið hlýtur að vera það sem við viljum. Mánaðarlaun leikskólakennara eru 78.912 krónur á meðan mánaðarlaun bankastjóra nema 912.381 krónum. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: hver gætir þess dýrmætasta í lífi fólks?“
Þessi orð Erlu eru þörf áminning um það sem gerist þegar ríkið rekur fyrirtæki eins leikskóla og banka og stjórnmálamenn skammta starfsmönnum laun. Er ekki kominn tími til að einkavæða bankana og leikskólana svo laun fari eftir því hversu störfin eru mikilvæg (dýrmæt) fyrir almenning en ekki eftir geðþótta pólítískusa?
Í nýlegri skoðanakönnun sem Samband ungra sjálfstæðismanna lét gera…
kom í ljós að mikill meiri hluti landsmanna vill að Húsnæðisstofnun ríkisins verði lögð niður og starfsemi hennar fengin viðskiptabönkunum. Enda vart rök fyrir því að sérstaka og rándýra ríkisstofnun þurfi til að rétta húsbyggjendum húsnæðislánin yfir borðið.