22. febrúar 1997: Ísland lenti í 31. sæti þegar…
efnahagslegt frelsi þjóða árin 1993-‘95 var borið saman af starfshópi á vegum ýmissa stofnana m.a. Cato í Bandaríkjunum, Fraser í Kanada og IEA í Bretlandi. Þá fengum við 6,1 í einkunn en Hong Kong trónaði á toppnum með 9.0. The Wall Street Journal og Heritage Foundation gefa einnig út svona frelsisvísitölu og taka Ísland með í reikninginn í fyrsta sinn í ár. Niðurstaðan er svipuð og hjá hinum stofnununum, Ísland lendir í 32. sæti með 2,50 stig en Hong Kong er efst með 1,25 en hæsta mögulega einkunn er 1,00 og sú slakasta 5,00 eins og Kúba og Norður-Kórea fá. Niðurstaðan er því einnig svipuð að því leyti að skýrsluhöfundar sjá sömu fylgnina milli efnahagslegs frelsis og hagsældar. Það sem dregur okkur einkum niður í könnun Hertitage er mikil skattheimta en vernd eignarréttar lyftir okkur mest upp.
22. febrúar 1997: Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju (SARK)…
halda aðalfund sinn í dag. Samtökin berjast, eins og nafnið bendir til, fyrir því að jöfnuði verði komið á í trúmálum þ.e. að ríkið hætti afskiptum sínum af þeim með því að skilið verði á milli ,,þjóðkirkjunnar“ og ríkisins. Björgvin Brynjólfsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri á Skagaströnd, er formaður SARK en hann var forvígismaður að stofnun þeirra fyrir nokkrum árum. Yfirstjórn kirkjunnar hefur þráast við að viðurkenna málstað samtakanna og ber við erfiðleikum í skiptingu eigna milli hennar og ríkisins. Já, það eru eignirnar, hin veraldlegu þing, sem standa í hinum andans mönnum!
22. febrúar 1997: Barátta SARK leiðir hugann…
að stöðu slíkra áhugamannasamtaka sem vilja breyta einhverju í ríkisrekstrinum. Í þessu dæmi er annars vegar er um að ræða ríkisstofnun, kirkjuna, með hátt í 2.000 milljónir króna af skattfé til árlegrar ráðstöfunar og mörg hundruð manns á launaskrá og hins vegar áhugamannasamtök sem reiða sig á frjáls framlög manna eins og Björgvins Brynjólfssonar. Óneitanlega er um ójafnan leik að ræða, án þess að hér sé verið að fara fram á að ríkið styrki slík áhugamannasamtök. Þrátt fyrir þennan ójafna leik sögðust 52% aðspurðra hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju í skoðanakönnun Gallúps í ágúst 1994 en 32% voru andvíg og 16% hlutlaus.
22. febrúar 1997: Mikil ánægja er nú sums staðar,…
einkanlega hjá kærunefnd jafnréttismála, yfir hæstaréttardómi sem fréttir sögðu frá í dag. Þar var verið að dæma slasaðri konu örorkubætur og það sem gladdi fólk svo mjög var það, að dómurinn tók ekki mið af þeim muni sem sagður er á greiddum launum karla og kvenna í landinu. Hæstiréttur hélt fram, að ákvæði stjórnarskrár um að allir skyldu vera jafnir fyrir lögum, útilokaði slíkt tillit. Hér er margs að gæta. Hlutverk skaðabótaréttar er einfalt. Að bæta fólki það tjón sem það verður fyrir, að tjónþoli verði sem líkast settur því sem orðið hefði, ef ekkert hefði hent hann. Í því ljósi er niðurstaða hæstaréttar vafasöm svo ekki sé meira sagt. Hefði kona sú, er slasaðist, ekki slasast, þá verður að ætla að hún hefði unnið sér inn þau laun er tíðast er um konu í hennar stöðu, hver sem hún hefur verið. Nú aftur á móti, fær hún bætur sem eru miðaðar við eitthvað allt annað. Hér hefur hæstiréttur gleymt hlutverki skaðabótaréttar og tekið sér fyrir hendur að bæta eitthvað allt annað en það tjón sem þessi kona hefur orðið fyrir. Þá er það misskilningur hæstaréttar að stjórnarskráin segi eitthvað um þetta. Ákvæði um jafnan rétt allra óháð kyni þýðir í þessu máli einfaldlega það að karl jafnt sem kona á rétt á að fá bótaskylt tjón bætt að fullu samkvæmt almennum reglum þar um. Það þýðir hins vegar ekki, að einhver eigi að fá bætt tjón sem einhver annar hefði orðið fyrir í hans sporum. Almennar skoðanir á hvort launa megi konu og karli með misjöfnum hætti koma þessu máli ekki við. Stjórnarskráin segir heldur ekkert um það atriði, hvort sem hæstarétti líkar það betur eða verr.