Laugardagur 15. febrúar 1997

46. tbl. 1. árg.

15. febrúar 1997: Staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts einstaklinga hefur hækkað…
jafnt og þétt frá því staðgreiðsla var tekin upp árið 1988. Á sama tíma hafa skattleysismörk einnig lækkað að raungildi, ættu að vera rúmar 70 þúsund krónur ef þau hefðu fylgt verðlagi frá 1988 en eru 60 þúsund. Þróun staðgreiðsluhlutfallsins hefur verið með þessum hætti:

1988: 35,20% 1989: 37,74% 1990: 39,79% 1991: 39,79% 1992: 39,85%
1993: 41,34% 1994: 41,84% 1995: 41,93% 1996: 41,94% 1997: 41,98%

Sérstaka athygli vekur að staðgreiðslan hefur hækkað á hverju ári frá 1991 þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn. Eitt árið var hækkunin þó ,,aðeins um 0,01 prósentustig þannig að halda mætti að það væri keppikefli flokksins að hækka bara til hækka!
Til að gæta fullrar sanngirni verður þó að geta þess að 4% lífeyrisgreiðsla launþega var undanþegin tekjuskatti á síðasta ári sem jafngildir um 1.700 króna skattalækkun á 100. þúsund króna mánaðarlaun og 3.400 króna lækkun fyrir 200. þúsund króna mánaðarlaun.

15. febrúar 1997: Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV ritaði eftirfarandi áminningu…
í leiðara blaðsins á miðvikudaginn var: ,,Þar sem smjör drýpur af hverju strái, bleikir akrar bylgjast og tré svigna undir ávöxtum, í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, starfa aðeins 2,8% þjóðanna að meðaltali við landbúnað. Eru þá fiskveiðar innifaldar í landbúnaði samkvæmt alþjóðlegri hefð. Hér við jaðar freðmýrabeltisins við heimskautsbaug, þar sem vetur ríkir hálft árið, akrar eru fáir og og ávextir vaxa aðeins í gróðurhúsum, starfa hlutfallslega helmingi fleiri við landbúnað, 5,6% þjóðarinnar. Er þá 4,5% atvinna í fiksveiðum ekki talin með. … Þetta eru ekki ný sannindi, heldur margtuggin. Samt þarf stundum að minna á þau, af því að ekki er fyrirsjáanleg nein breyting á þeirri stefnu stjórnvalda og kjósenda , að lífskjörum þjóðarinnar skuli haldið niðri til að halda uppi óeðlilega miklum landbúnaði í harðbýlu landi. Sérstök ástæða er til að minna á þetta nú, þegar kjarasamningar standa yfir og aðilar vinnumarkaðarins eru að reyna að skipta peningum , sem ekki eru til ráðstöfunar, af því að þeim hefur verið brennt á altari landbúnaðarins og það með vitund aðila vinnumarkaðarins.