Föstudagur 14. febrúar 1997

45. tbl. 1. árg.

14. febrúar 1997: Damon Albarn, söngvari hljómsveitarinnar BLUR,
tjáði sig um stjórnmál á Bylgjunni í gær. Í máli hans kom m.a. fram að hann ætlaði að styðja Tony Blair, leiðtoga Verkamannaflokksins í komandi þingkosningum. Albarn bætti svo við að Blair væri þó einhvers konar nútíma íhaldsmaður sem byggi í dýrasta hverfinu í London og sendi börnin sín í einkaskóla. Albarn hefur greinilega ákveðið að vera enginn eftirbátur foringjans því eins og alþjóð veit hefur hann fest kaup á húsnæði hér í Reykjavík – einni dýrustu borg heims. Hvort það gerir hann nútímalegan íhaldsmann eða bara gamaldags skal ósagt látið.

14. febrúar 1997: Ofstjórn og óstjórn eru systur…
eins og gamla kempan Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson) benti tíðum á. Þessi orð rifjast oft upp þegar hlýtt er á erlendar fréttir í Ríkisútvarpinu. Þegar sagt er frá fátækt í þriðja heiminum er oft sagt að ástæðan sé óstjórn í efnahagsmálum viðkomandi lands. Með öðrum orðum er sagt að matvælaframleiðslu viðkomandi lands sé illa stjórnað og gefið í skyn að allt myndi þetta ganga betur ef hlutunum yrði betur eða meira stjórnað. Í raun er vandamálið oftast OFSTJÓRN en ekki ÓSTJÓRN, þ.e. valdhafarnir gera sér ekki grein fyrir takmörkum sínum og reyna að stjórna of miklu, t.d. matvælaframleiðslunni, í stað þess að láta frjálsa markaðinn sjá um að metta milljónir munna. Í hádegisfréttum útvarps í gær var sagt frá örbirgð í Norður-Kóreu og sagt að hungursneyð ríkti í landinu vegna flóða og uppskerubrests. Þetta er ekki rétt eða a.m.k. er ekki nema hálf sagan sögð. Raunveruleg ástæða hungursins er miðstýrt og misheppnað efnahagskerfi landsins. Einn angi þessa kommúnisma kemur fram í ,,Juche stefnunni svokölluðu en hún kveður á um að þjóðin skuli vera sjálfri sér nóg um alla hluti. Nágrannarnir í Suður-Kóreu verða einnig fyrir barðinu á flóðum og uppskerubresti en þar er samt aldrei hungursneyð. Fréttamenn mættu oftar kafa til botns í málunum og segja frá því þegar miðstýrð og misheppnuð efnahagsstefna, öðru nafni ofstjórn, er sökudólgurinn.