13. febrúar 1997: Í fréttum MTV sjónvarpsstöðvarinnar…
í nótt kom fram að samkvæmt nýlegri skoðanakönnun vilja 16% ungra Evrópubúa ekki fara út með einstaklingi sem hefur annan húðlit en viðkomandi. Kynþáttafordómar af þessu tagi – svo ekki sé minnst á kynþáttahatur – eru einn angi þeirrar heildarhyggju sem svo víða er ríkjandi og erfitt er að koma fyrir kattarnef. Það er ótrúlegt hve oft reynist auðvelt að fá fólk til að líta frekar á sig sem hluta af hópi en sem einstaklinga, en enn auðveldara virðist þó að láta fólk líta á aðra í gegnum heildarhyggjugleraugun. Víst má telja að mannkynið hefði ekki þurft að ganga í gegnum jafn miklar hörmungar og raun hefur orðið á ef einstaklingshyggjan hefði ráðið meiru um gjörðir manna.
13. febrúar 1997: Ákvæði um ,,sameign þjóðarinnar“…
á nytjastofnunum við Ísland í lögum um stjórn fiskveiða varð ungum lögfræðingi, Skúla Magnússyni, tilefni til að rita kjallaragrein í DV í gær.Hann setur þar fram þá skoðun sína að ekki geti verið átt við sameign í venjulegum skilningi, heldur hljóti að vera átt við ríkiseign á fiskinum í sjónum. Þetta geti hins vegar varla staðist því samkvæmt meginreglum íslensks réttar sé ekki hægt að eiga villtan og vörslulausan fisk í sjó auk þess sem takmarkanir séu á heimildum ríkis innan efnahagslögsögunnar samkvæmt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1982. Í greininni kemur jafnframt fram að í athugasemdum við lögin megi sjá að tal í þeim um sameign sé hugsað sem stefnuyfirlýsing um að fiskistofnarnir verði nýttir fyrir þjóðarheildina. Skúli tekur kröftuglega undir þá gagnrýni sem ákvæðið um sameign hefur legið undir og segir að með notkun þess hugtaks komist ,,óbrjáluð hugsun ekki til skila.“ Hann klykkir út með því að benda á að slíka stefnumörkun sem ákvæðið sé ætti ekki að festa í lögum.
13. febrúar 1997: Í miðopnu Moggans 7. febrúar sl. var slegið upp brandara…
sem verður því miður öllum gleymdur um það leyti sem efni hans á að rætast. Reykjavíkurborg og ríkið skrifuðu undir samning við samtök er nefnast Europian Cities Against Drugs (ECAD). Það er óhætt að taka undir leiðara Elíasar Snælands Jónssonar, í DV á laugardaginn var, að markmiðið með samningnum er vægast sagt óraunhæft: Ísland á að verða fíkniefnalaust land árið 2002. Nú er ekki ljóst hvort bjartsýnisvíma þeirra, sem undir samninginn skrifuðu, stafi af óhóflegri lyfjanoktun eður ei, en hitt er líklegra að hér liggi að baki pólítískur vinsældaleikur, enda fátt sem sameinar alla stjórnmálamenn meira en ,,baráttan gegn fíkniefnum”. Það er hins vegar hæpið að óska þeim góðs gengis, því jafnvel þar sem yfirvöld þurftu ekkert tillit að taka til mannréttinda (s.s. í Sovétríkjunum sálugu) stóð verslun með fíkniefni í blóma. Hvað á þá að gera hér fyrir árið 2002? Taka KGB fram í mannréttindabrotum?