Er launamunur kynjanna raunverulegur?

Er málefnalegt að byggja íþyngjandi stjórnvaldsaðgerðir á borð við skyldu til jafnlaunavottunar á jafn óljósum grunni og meintum launamun kynjanna? Mynd: Shutterstock/Lightspring.

Óvissa í launakönnunum er varla minni en sá um það bil 5% „kynbundni launamunur“ sem þær gefa til kynna.

Óvissan er vegna huglægra þátta sem vinnuveitendur taka mið af þegar starfsmönnum eru greidd laun. Hversu þægilegt er að bera það upp við starfsmann að vinna skyndilega yfirvinnu eða leysa úr vandamálum? Hversu vel gengur starfsmanni að vinna með öðrum? Hve líklegt er að samskipti starfsmanns við viðskiptavini leiði til frekari viðskipta?

Prófgráður, aldur og starfsreynsla segja auðvitað bara hálfa söguna um hve verðmætur starfsmaður er. Menn geta verið nánast eins „á pappírunum“ en engu að síður mjög ólíkir í huga atvinnurekandans. Og það sem meira er. Einum vinnuveitanda kann að þykja starfsmaður gulls ígildi en öðrum alveg gagnslaus.

Helgi Tómasson prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands ritaði um þessi mál í 2. hefti Þjóðmála árið 2006. Þar sagði meðal annars:

Ljóst er að mikið af mældum launamun er vegna hegðunar þeirra kynslóða sem nú eru á vinnumarkaði. Í sumum núlifandi kynslóðum er stór hluti kvenna sem hefur miklu minni reynslu á vinnumarkaði en karlar. Augljóst er að tölfræðilíkan sem ætti að skýra allan vinnumarkaðinn fyrir allar núlifandi kynslóðir er flókið. Einföld líkön gefa bjagaða mynd og leiða til þess að fólk hrapar að alröngum ályktunum. Það er ljóst að hugsanlegt misrétti milli kynja eða kynþátta getur ekki skipt mörgum prósentum. Sömuleiðis er afar ósennilegt að menn hafi myndað samtök um að stunda mismunum sem bitnar á heilum hóp. Það myndi krefjast samstöðu, sem hætt er við að brotnaði þegar harðnaði á dalnum í hagkerfinu. E.t.v. eru einhvers staðar til vinnuveitendur sem mismuna einstaklingum, hygla ættingjum sínum eða flokkssystkinum án þess að horfa í kostnaðinn. Hvort að slík umbun er algengari meðal annars kynsins er ekki vel ljóst. Slíkt getur hins vegar ekki viðgengist til lengdar í markaðskerfi og alls ekki í slíku mæli að dugi til að hreyfa til meðaltal stórs hóps.

Er ástæða til að byggja íþyngjandi aðgerðir á borð við fyrirhugaða skyldu fyrirtækja til dýrrar „jafnlaunavottunar“ þegar „launamunur kynjanna“ er jafn óljós og raun ber vitni?