Smám saman fennir yfir vinstristjórnina

Fyrsta ráðuneyti Bjarna Benediktssonar yngri.

Árin 2009-2013 sat róttæk vinstristjórn á Íslandi. Hún komst til valda við sérstakar aðstæður og nýtti sér þær eins og hún gat. Skattar voru hækkaðir mjög mikið, reynt var að gerbreyta stjórnarskránni, sótt var um inngöngu í Evrópusambandið þótt meirihluti þingmanna vildi ekki ganga í sambandið, reynt að koma ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning, ráðuneytum var ruglað saman til að gera samanburð milli ára og ráðherra erfiðari, skattþrepum var fjölgað úr einu í þrjú, ákveðnum fyrirtækjum hyglað með skattaívilnunum og beinum ríkisstyrkjum, fólk hvatt til að kaupa meira mengandi bíla, íblöndun umhverfisskaðlegs lífeldsneytis gerð að kvöð og svo framvegis.

Fylgi stjórnarflokkanna hrundi strax í næstu kosningum. Stjórnarandstöðuflokkarnir fengu mikinn meirihluta þingmanna, 38-25. Mörg verk vinstristjórnarinnar standa hins vegar ennþá, þar á meðal ýmsar skattahækkanir.

Nú hefur ný ríkisstjórn tekið við. Vonandi mun hún færa margt til betri vegar. Þegar hefur það skref verið stigið að gera ráðuneyti gagnsærri og ábyrgð ráðherra skýrari. Í stjórnarsáttmálanum er svo kveðið á um lækkun tryggingagjalds og vonandi verður sú lækkun að minnsta kosti svo mikil að tryggingagjaldshækkun vinstristjórnarinnar hafi öll gengið til baka.

Mjög margt fleira þarf að gera. Sérstaklega er mikilvægt að lækka álögur hins opinbera á borgarana. Þar má lækka tekjuskatt, erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt, en allir þessir skattar hækkuðu mikið á vinstristjórnarárunum. Svo þarf að huga að lækkun skatta til sveitarfélaganna, til dæmis með lækkun hámarksútsvars.

Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar og þess að hún vinni í anda raunverulegs frjálslyndis, meira frelsis og lægri skatta.