Leyniverktakar Pírata þiggja milljónir

Píratar tilkynntu í gær að þeir væru búnir að „opna kosningabókhald“ sitt og skoruðu á aðra stjórnmálaflokka að gera slíkt hið sama. Nokkrir fjölmiðlar hafa bitið á agnið og sagt fréttir af þessari „opnun“ líkt og um mikil tímamót sé að ræða. En það sem Píratar eru að „opna“ með lúðrablæstri nú er lítið annað en það sem birt er frá öllum stjórnmálaflokkum á vef Ríkisendurskoðunar á hverju ári eins og lög gera ráð fyrir.

Líkt og hjá öllum öðrum stjórnmálaflokkum er mikill meirihluti tekna Pírata ríkisstyrkur enda er flokkunum bannað að þiggja nema lágar fjárhæðir – sérstaklega í samanburði við ríkisstyrkina – frá einstaklingum og lögaðilum.

Það sem er þó athyglisverðast í þessari „opnun“ Pírata er að lokað er á ákveðnar upplýsingar vegna „persónuverndar“ en þar er um að ræða greiðslur til „verktaka“ upp á nokkrar milljónir króna. Þær greiðslur eru sagðar „ósundurliðaðar vegna persónuverndar“ samkvæmt yfirlýsingu frá Pírötum.

Hvers vegna má ekki skýra frá því hverjir eru verktakar Pírata? Hvaða opnun er það eiginlega að skella á nefið á þeim sem vilja skoða „verktakana“? Hvaða verk voru þessir menn eiginlega látnir vinna með þeim afleiðingum að persóna þeirra þurfi sérstaka vernd?

Píratar eru þarna að eyða fé frá almenningi í „verktaka“. Er það ekki stefna þeirra að upplýsingar um slíkt séu aðgengilegar? Hvað varð um „upplýsingafrelsið“ sem þeir ákalla svo mjög?

Hvernig á almenningur að geta tekið afstöðu til hins „opna kosningabókhalds“ Pírata þegar þessar upplýsingar skortir? Á hann bara að sitja hjá eins og Jón Þór?