Spíralykt af löggjöfinni

Eldsneyti sem unnið er úr matvælum sem mettað gætu tugþúsundir er nú brennt í íslenskum bílvélum.

Í gær kom í ljós að tjón Íslands vegna laga um endurnýjanlegt eldsneyti á bíla er talið hafa verið að lágmarki 1,1 milljarður króna á árinu 2015. Þessir fjármunir eru meðgjöf íslenska ríkisins með innflutningi á lífdiesel og etanóli sem vinstri stjórnin skikkaði Íslendinga til að blanda í Dieselolíu og bensín.

Upplýsingar um þessa meðgjöf ríkisins koma fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn þar um.

Þessir fjármunir renna úr landi til framleiðenda á þessu dýra lífeldsneyti sem að stórum hluta er unnið úr matjurtum á borð við hveiti, maís og repju.

Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir kom það jafnframt í ljós að það er mörg þúsund sinnum dýrara að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með þessari íblöndun í eldsneyti en með endurheimt votlendis. Framleiðsla lífeldsneytis hefur svo ýmis önnur neikvæð áhrif á bæði fólk og umhverfið en endurheimt votlendis hefur fjölmörg jákvæð áhrif á lífríkið.

En hvers vegna tókst svo illa til við lagasetningu um þessi mál að milljarðakostnaður lendir á Íslendingum með neikvæðum afleiðingum fyrir umhverfið? Hvers vegna var dýrasta og lélegasta leiðin valin?

bf43abaec857ca01d8b0471ce258b10a

Af forsíðu Fréttablaðsins 29. nóvember 2013.

Því miður er ástæðan er sú að lagafrumvarpið um íblöndunina sem Steingrímur J. Sigfússon þáverandi atvinnuvegaráðherra fékk samþykkt í mars 2013 var skrifað af einkafyrirtæki sem ætlaði sér að framleiða og selja tréspíra (metanól) til íblöndunar í bensín landsmanna.

Aðkomu einkafyrirtækisins að lagasmíðinni var leynt fyrir grunlausum þingmönnum á meðan málið fór hraðferð í gegnum þingið. Þingmenn héldu að málið væri bara hefðbundin innleiðing á einhverjum tilskipunum Evrópusambandsins.

Upp komst um málið á haustdögum 2013 þegar menn skoðuðu Word-skjalið sem innihélt frumvarpið. Þar var hægt að sjá hver upphaflegur höfundur þess var.

Starfsmenn fyrirtækisins viðurkenndu svo í samtali við Fréttablaðið 29. nóvember 2013 að hafa samið og sent ráðuneyti Steingríms frumvarpið. Starfsmaður einkafyrirtækisins sem það gerði hafði áður verið aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra vinstri stjórnarinnar.

Um þessa óvenjulegu málsmeðferð sagði Gunnar Helgi Kristinsson prófssor í stjórnmálafræði í viðtali við Fréttablaðið 17. desember 2013:

Það sem er einkennilegt í þessu máli er að fyrirtækið semur tilbúið frumvarp, en ég kann engin önnur dæmi um slíkt.

Ekkert varð hins vegar úr íblöndun tréspíra frá íslenska einkafyrirtækinu í bensín hér á landi enda eru á slíkri íblöndun veruleg tæknileg vandkvæði og alþjóðasamtök bíla- og vélarframleiðenda leggjast eindregið gegn henni í sinni eldsneytishandbók, auk þess sem orkuinnihald lítra af tréspírans er aðeins helmingur af orkuinnihaldi bensínlítrans.

Þess í stað hófst stórfelldur innflutningur á lífdiesel og etanóli til að mæta lagaskyldunni.

Frumvarp hefur legið fyrir þinginu frá fjórum þingmönnum stjórnarflokkanna undanfarið ár um að afnema þessar íblöndunarkvöð en ekki komist á dagskrá.

Á meðan tapa Íslendingar yfir þúsund milljónum á ári.

Hver er ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar á vinnubrögðunum við gerð frumvarpsins og því tjóni sem af lögunum hefur hlotist?