Lægri eða hærri skatta – þú kýst um það á laugardaginn

Vinstriflokkarnir eru orðnir svo sigurvissir að þeir fela það ekki að þeir ætla að mynda vinstristjórn eftir kosningarnar á laugardaginn. Þeir telja að ekkert geti komið í veg fyrir að ný stjórn, eins og sú sem hrökklaðist frá eftir kosningarnar 2013, taki við völdum í næstu viku. Steingrímur J. Sigfússon, Björn Valur Gíslason, Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason komist aftur í valdastólanna, nú með hjálp frá Birgittu Jónsdóttur og Smára McCarthy.

Ef ekkert gerist mun þetta fólk setjast í valdastólana eftir nokkra daga. Og þá verður setið í fjögur ár.

Fjögur ár af skattahækkunum.

Síðasta vinstristjórn hækkaði skatta um 100 sinnum, á fjögurra ára kjörtímabili. Ef skattahækkanirnar dreifðust jafnt yfir kjörtímabilið þýddi það skattahækkun á hálfsmánaðarrfresti.

Vinstriflokkarnir hafa ekki skipt um stefnu. Vinstristjórn þýðir skattahækkanir á fólk og fyrirtæki. Skattahækkanir á fyrirtæki draga úr getu þeirra til að borga laun, til að fjölga starfsfólki, til að fjárfesta, til að þróa nýjar vörur, til að kaupa vörur og þjónustu af öðrum fyrirtækjum sem dregur svo úr þeim fyrirtækjum.

Allir borga skatta. Mjög margir borga tekjuskatt. Allir borga virðisaukaskatt af vörum og þjónustu. Fjármagnstekjuskattur leggst á húsaleigu og hækkar hana. Skattahækkanir leggjast á alla. Skattalækkanir koma öllum til góða.

Vinstristjórn, eins og sú sem nú er verið að mynda fyrir kosningar, mun hækka skatta fólks.

Ef stjórn eins og sú sem nú situr, verður hins vegar við völd, munu skattar ekki hækka. Þeir munu lækka. Sjálfstæðisflokkurinn boðar skattalækkanir á fólk og Framsóknarflokkurinn að nokkru leyti.

Ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sterka stöðu, mun ekki hækka skatta heldur lækka. Það verður jafnvægi í ríkisbúskapnum. Það verður ekki reynt að koma Íslandi í Evrópusambandið.

En hvernig sem kosningarnar fara þá verður ekki mynduð frjálshyggjuríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Til þess er engin von, eða engin hætta, hvernig sem menn líta á það. Valið á laugardaginn snýst ekki um frjálshyggju eða ekki frjálshyggju.

Valið er hins vegar mjög einfalt. Vinstristjórn um skattahækkanir og Evrópusambandsumsókn, eða rólegar skattalækkanir sem hvorki mun fylgja fjárlagahalli né almennur niðurskurður ríkisútgjalda.

Kosningarnar snúast um hluti eins og þessa. Vilja menn róttæka vinstristjórn sem mun hækka skatta, af því að vinstrimenn vilja hækka skatta? Eða vilja menn rólega stjórn í anda þeirrar sem nú situr, stjórn sem mun standa fyrir hóflegum skattalækkunum sem gagnast munu öllum launamönnum?

Síðarnefnda stjórnin mun ganga hægar fram en frjálshyggjumenn vildu. En það er varla nokkur vafi hvor myndi reynast íslenskum launamönnum og íslensku atvinnulífi betur.