Þarf að endurræsa land í blóma?

Mynd: Yadid Levy / Norden.org.

Í gær birtust nokkur mikilvæg atriði sem kjósendur í næstum öllum löndum myndu láta hafa veruleg áhrif á það hvernig þeir verja atkvæðu sínu. Þau eru fengin frá hagdeild Alþýðusambands Íslands og frétt Ríkisútvarpsins.

Í frétt Ríkisútvarpsins í gær segir meðal annars:

Það sem af er árinu 2016 hefur kaupmáttur launa aukist um 10,4 prósent, en hækkaði um 7,2 prósent allt árið í fyrra. Á fyrstu átta mánuðum ársins hefur launavísitala hækkað að jafnaði um 12,1 prósent.

Í nýrri hagspá ASÍ, undir fyrirsögninni „Hagvöxtur eykst enn á næsta ári“, segir meðal annars:

Verg landsframleiðsla eykst hressilega yfir spátímann og gangi spá hagdeildar eftir verður hagvöxtur 4,7% á þessu ári og 5,4% árið 2017. Hagvöxtur verður þó öllu minni árið 2018, eða 2,5%. …

Spáð er minni verðbólgu en áður og skýrist sú breyting að mestu af breyttri forsendu um gengisþróun en nú gerum við ráð fyrir hóflegri styrkingu krónunnar allan spátímann. …

Ólíkt aðstæðum fyrir hrun er skuldastaða heimilanna góð og launaþróun hefur skapað forsendur fyrir aukinni einkaneyslu. Hagdeild spáir 7,6% vexti einkaneyslunnar á þessu ári og að jafnaði 4,6% vexti á árunum 2017-2018. …

Hagfelld gengisþróun dregur úr verðbólguþrýstingi og er líklegt að verðbólga haldist undir og kringum verðbólgumarkmið Seðlabankans mest allt spátímabilið. Verðbólga tekur hins vegar að aukast árið 2018 þegar hægir á styrkingu krónunnar.

Samkvæmt skoðanakönnunum njóta nú einna mests fylgis þeir sem segja alveg nauðsynlegt að „endurræsa Ísland“, með því að gerbylta stjórnarskránni. Þeir eru líklegir til að mynda stjórn með þeim flokkum sem vilja að Ísland gangi inn í Evrópusambandið. Sem sjálfur Jón Baldvin Hannibalsson segir að sé það sama og að ganga inn í brennandi hús.

Samkvæmt skoðanakönnunum taka þessir flokkar við stjórn landsins eftir rúma viku.