Baráttumenn fyrir jöfnuði hafa ekkert á móti hækkun greiðslna til hálaunafólks

Hvenær varð það eiginlega stefnumál jafnaðarflokkanna að hátekjumenn fengju hæstu félagslegu bæturnar? Mynd: Shutterstock/Yury Velikanov.

Nýlega var sagt frá því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi skyldu hækka verulega.

Um það varð töluverð umræða og að sjálfsögðu um aukaatriði.

Verðandi mæður komu í fjölmiðla sárreiðar yfir því að ákvörðunin tæki til foreldra barna sem fæddust eftir tiltekna dagsetningu. Læknar sögðu frá því að konur vildu fresta „gangsetningu“, til þess að tryggja hærri greiðslur úr ríkissjóði.

En hvernig væri að ræða aðalatriði málsins?

Eitt þeirra er það atriði, að fólk fær því hærri greiðslur úr fæðingarorlofssjóði sem það hafði hærri tekjur áður. Hátekjumaðurinn þarf auðvitað að fá háar greiðslur úr ríkissjóði, svo hann geti hugsað sér að fara í orlof. Láglaunamaðurinn getur látið sér lágar bætur nægja. Öryrkinn, námsmaðurinn og sá atvinnulausi eru ekki vön góðu og þurfa ekki háar greiðslur.

Ákveðnir stjórnmálaflokkar tala mikið um „jöfnuð“. Þeir vilja berjast á móti „auknum ójöfnuði“.

En þeir mótmæla aldrei að hátekjufólk fái hærri greiðslur úr fæðingarorlofssjóði en lágtekjufólk.

Þar er ójöfnuður sem ríkið býr til. Ekki eitthvað sem samið er um á vinnumarkaði.

Sá sem hefur verið lengi á háum launum ætti að hafa haft aðstöðu til þess að safna sér sparifé. Hann ætti miklu frekar en lágtekjumaðurinn að þola stutt orlof á lágum greiðslum.

Þeir sem vilja í raun „aukinn jöfnuð“ í þjóðfélaginu ættu að berjast af krafti fyrir því að fæðingarorlofsgreiðslur, komi þær úr ríkissjóði, séu jafnar til allra.

Það er ekkert réttlæti í því fólgið að hátekjumaðurinn fái hálfa milljón á mánuði úr fæðingarorlofssjóði en einstæða lágtekjukonan hundrað og fimmtíu þúsund krónur.

Hátekjumaðurinn sem búinn er að safna á bankareikning í mörg ár og er áskrifandi að mörgum verðbréfasjóðum, fær hámarksgreiðslu. Lágtekjumaðurinn, sem varla nær endum saman, fær lágmarksgreiðslu. Og enginn þeirra, sem í kosningum þykist berjast fyrir „jöfnuði“, segir orð.