Kirkjan áttar sig á því sem ríkið á bágt með að skilja

Nú heyrast loks hátt og snjallt hugmyndir um markaðslausnir og valddreifingu frá Samtökum atvinnulífsins. Þetta var orðið ágætt með andstöðu við skattalækkanir á launafólk, stuðning við Icesave, ESB og fjáraustur í landbúnaðarkerfið, ásamt því að vera köngulóin í SALEK-miðstýringunni.

Þannig hefur Óttar Snædal hagfræðingur samtakanna undanfarið kynnt þá stefnu að gjaldtaka að ferðamannastöðum verði gefin frjáls.

Í erindi sem hann flutti fyrr í mánuðinum eru þessi stef þau helstu:

Sköpum sátt um frjálsa gjaldtöku fyrir virðisaukandi þjónustu.

*Gerir landeigendum, opinberum sem öðrum, kleift að stýra ágangi með verðlagningu og skapar tekjur til viðhalds og uppbyggingar.

*Hagur landeigenda fer þá saman við landvernd og hvetur möguleiki til gjaldtöku til markaðssóknar og uppbyggingar ferðmannastaða.

*Arður fæst af auðlindum af greiðslu þeirra sem sannarlega njóta þeirra.

Þetta er ekki mikið flóknara. Það þarf engan náttúrupassa eða stjórnstöð ferðamála til að leysa þessi mál. Valddreifing á frjálsum markaði er allt sem þarf.

Í Hallgrímskirkju hafa menn áttað sig á þessu og það streymir fé í kirkjusjóðinn sem aðgangseyrir í turn kirkjunnar. Um þetta segir Óttar í Fréttablaðinu 14. september:

Vissulega er munur á kirkjubyggingum og náttúruperlum en þó eiga svipuð lögmál við hvað varðar ágang og kostnað við viðhald,“ segir Óttar Snædal hjá SA. „Við gjaldtöku myndast fjármagn sem hægt er að nota til viðhalds. Eins og sést í Hallgrímskirkju þá virkar gjaldtaka vel því hún aðgangsstýrir annars vegar og skilar tekjum til uppbyggingar hins vegar.“