Matvælum sem nært gætu tugþúsundir brennt í bílvélum á Íslandi

Ríkissjóður Íslands leggur árlega mörg hundruð milljónir í niðurgreiðslur innflutnings á eldsneyti sem unnið er úr matvælum á borð við hveiti, repju og maís. Vinstri stjórnin leiddi þessa matarsóun í lög árið 2013 en komið er fram frumvarp um að afnema hana. Mynd: Shutterstock/Hurst Photo.

Hafin er íblöndun etanóls (vínanda) í bensín hér landi. Það er gert til mæta kröfum laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum sem samin voru og sett með sérstæðum hætti á síðasta kjörtímabili.

Þótt etanól sé dýrara í innkaupum en bensín inniheldur það þriðjungi minni orku. Blöndun etanóls í bensín leiðir því til aukinnar eldsneytiseyðslu, fleiri ferða á bensínstöðvar og aukins innflutnings á eldsneyti.

Etanólið er framleitt úr ýmsu kornmeti sem ella gæti nýst sem fæða fyrir fólk. Samkvæmt þessum upplýsingum má gera ráð fyrir að ef 10 milljónir lítra af etanóli eru fluttar til landsins á ári (til að mæta kröfunni um 5% íblöndun í bensín) samsvari það næringu fyrir um 100 þúsund manneskjur á ári. Varla þykir Íslendingum gott að  brenna matvælum í bílum sínum og stuðla að hærra matarverði á meðan fólk sveltur í heiminum.

En íslenska ríkið þvingar olíufélög ekki aðeins til að flytja inn slíkt matvælaeldsneyti heldur styrkir það innflutninginn um 70 krónur á hvern lítra með skattaívilnunum. Já ríkissjóður Íslands niðurgreiðir innflutninginn á þessum landbúnaðarafurðum.

Enginn sjáanlegur ávinningur fyrir umhverfið er af notkun etanóls. Þvert á móti þarf að ryðja skóga og ræsa fram votlendi undir þessa ræktun sem leiðir til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Sigríður Á. Andersen hefur ásamt Frosta Sigurjónssyni, Willum Þór Þórssyni og Ragnheiði Ríkharðsdóttur lagt fram frumvarp á alþingi um að aflétta þessum ólögum.