Mánudagur 10. janúar 2011

10. tbl. 15. árg.

Leiðin frá alþýðumanni til yfirstéttar er oft styttri en menn hugðu.

Birgitta Jónsdóttir, sem stundum bregður sér úr alþingishúsinu og yfir á Austurvöll til þess að lemja í tunnur, hefur mótmælt því harðlega að erlend yfirvöld fái afhent einhver tölvusamskipti hennar. Hún ber því fyrir sig að hún sé íslenskur alþingismaður. Hefur hún fengið ráðherra með sér í lið og fengið þá til að beita stjórnsýslunni fyrir sig í málinu. Ráðherrarnir segja mjög alvarlegt að friðhelgi alþingismanns sé ekki virt.

Birgitta virðist álíta að alþingismenn eigi meiri rétt en ómerkilegir borgarar. Var það ekki einmitt eitt af helstu baráttumálum Borgarahreyfingarinnar?

Birgitta mun hafa verið einn af forsvarsmönnum vefsíðunnar Wikileaks. Sú síða snýst um að birta stolnar upplýsingar og skjöl um fólk. Hefur síðan meðal annars slegið sig til riddara fyrir að hafa birt skjöl úr bandarískum sendiráðum, skjöl sem enn sem komið er virðast mörg hver vera fjarri því að hafa mikið gildi.

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður er hærra sett en margir þeirra sem skrifuðu stolnu Wikileaks-skjölin. Hún vill hins vegar fá slíka vernd um eigin skjöl að ekki megi einu sinni afhenda stjórnvöldum þau, í samræmi við lög í viðkomandi landi. Sjálf birtir hún stolin skjöl og er stolt af. Sjálf berst hún fyrir því að Íslandi verði breytt í „griðland upplýsinga“, það er að segja að hér megi birta öll stolin skjöl, án þess að þjófurinn beri nokkra ábyrgð á gjörðum sínum. Á sama tíma berst hún með kjafti og klóm fyrir því að verja eigin skjöl, því hún sé alþingismaður og eigi því að njóta friðhelgi.

Hin erlendu yfirvöld stálu ekki skjölum Birgittu. Þau virðast aðeins hafa lagt fram beiðni í samræmi við gildandi lög í landi sínu. Ef þau hefðu beitt Wikileaks-réttvísinni hefðu þau einfaldlega stolið skjölunum og birt svo allt klabbið opinberlega. Sennilega hefðu hefðbundnir baráttufélagar Birgittu talið það réttu aðferðina. Ef að einhver annar stjórnmálamaður en Birgitta Jónsdóttir ætti í hlut, ætli Birgitta Jónsdóttir baráttukona hefði talið friðhelgi hans mikils virði?

Og íslenskir ráðamenn eru komnir á fulla ferð við að vernda friðhelgi þingmannsins. En það er auðvitað á sinn hátt skiljanlegt. Ríkisstjórnin nýtur afar naums þingmeirihluta og varla nema flokksaga sé beitt af fyllstu hörku. Við þær aðstæður er ákaflega freistandi að gera stjórnarandstöðuþingmanni greiða.