Á dögunum sendi skipulagsstjóri ríkisins frá sér úrskurð er varðar hugsanlega gerð virkjunar einnar. Úrskurður þessi hefur talsvert verið ræddur opinberlega og nú nýlega hafa ýmsir látið í ljós þá skoðun að hann sé ekki sérstaklega vel unninn og jafnvel ekki í samræmi við lög og reglur. Aðrir höfðu, jafnskjótt og úrskurðinn var birtur, látið hafa eftir sér að úrskurður þessi væri ákaflega vandaður og útilokað að honum yrði hnekkt. Skoðanir eru sem sagt skiptar um þetta málefni og liggur fyrir að úrskurðurinn verður kærður til umhverfisráðherra eins og lög gera ráð fyrir. Flestir kærenda munu andvígir úrskurði skipulagsstjóra en einnig hefur frést af aðila sem mun hafa í hyggju að „kæra úrskurðinn til staðfestingar“.
„En allir þessir úrskurðir, dómar og ákvarðanir, allt er þetta komið frá lifandi mönnum sem hver og einn hefur sína skoðun á lífinu og tilverunni.“ |
Og umræðan um væntanlegar kærur er nú með þeim hætti að menn velta fyrir sér hvort „Siv Friðleifsdóttir muni ganga gegn úrskurði Skipulagsstofnunar“. Enginn spyr hvort sérfræðingar umhverfisráðuneytisins muni komast að annarri niðurstöðu en Stefán Thors skipulagsstjóri ríkisins. Sem þó væri aðeins annað orðalag yfir sama hlut. Nú er ekki svo að skilja að þetta sé eitthvað einstakt. Það er þvert á móti algengt í opinberri umræðu á Íslandi að menn láti eins og opinberar stofnanir séu sjálfstæðar lífverur. Að það séu hlutlausar stofnanir en ekki starfsmenn af holdi og blóði sem felli dóma, kveði upp úrskurði eða veiti leyfi. „Skipulagsstofnun hefur úrskurðað“, „Hæstiréttur hefur dæmt“, „Samkeppnisstofnun hefur ákveðið“ heyrist iðulega í fréttum og hlustendur fá ósjálfrátt á tilfinninguna að málin hafi verið lögð til vísindalegrar rannsóknar hlutlausrar stofnunar sem hafi leitt sannleikann í ljós. Og allir sem mótmæli séu ófaglegir, hlutdrægir og tapsárir.
En allir þessir úrskurðir, dómar og ákvarðanir, allt er þetta komið frá lifandi mönnum sem hver og einn hefur sína skoðun á lífinu og tilverunni. Jafnvel þó ætlast sé til þess að þeir fari að tilteknum lögum og leikreglum þá munu skoðanir þeirra, hugsanlegir fordómar, lífssýn þeirra og hvað menn vilja kalla það, alltaf hafa sín áhrif. Þegar það bætist við, að þeir geta treyst því að ýmsir munu alltaf vera tilbúnir að koma þeim til varnar með því að amast við allri gagnrýni, þá eykst hættan á því að persónulegar skoðanir starfsmanna stofnana hafi áhrif á niðurstöður „faglegra“ úrskurða og dóma. Og ekki minnkar hættan við það starfsmennirnir úrskurða í nafni stofnunarinnar ekki sínu eigin.
Það er aldrei sagt í fréttum að Stefán Thors sé á móti virkjun. Það er ekki sagt að Guðmundur Sigurðsson banni mönnum að kaupa, selja eða sameina fyrirtæki. Það er ekki sagt að Hrafn Bragason og Haraldur Henrysson hafi ákveðið að menn megi segja og skrifa næstum hvað sem er um Kjartan Gunnarsson af því að hann starfar á skrifstofu tiltekins stjórnmálaflokks. Nei, í fréttum er það helst að Skipulagsstofnun leggst gegn Kárahnjúkavirkjun, Samkeppnisstofnun ógildir samruna prentsmiðja og Hæstiréttur sýknar mann í meiðyrðamáli.
Nú er ekki svo að skilja að allir úrskurðir sem kveðnir eru upp í nafni opinberra stofnana séu skilyrðislaust rangir. Það er einnig óþarfi að líta svo á að embættismenn hugsi um það eitt að koma sínum persónulegu sjónarmiðum áleiðis en láti staðreyndir mála og almennar leikreglur sem vind um eyrun þjóta. Hins vegar ættu menn að hafa það í huga að opinberu úrskurðirnir og dómarnir, þeir eru ekki heldur endilega réttir. Það er ekkert víst að skipulagsstjóri ríkisins taki rétta – eða ranga – ákvörðun um umhverfismat. Það er ekkert víst að þeir hjá samkeppnisstofnun túlki samkeppnislögin rétt og það er heldur ekki öruggt að þeir geri það alltaf rangt. Og sama gildir um dóma Hæstaréttar. Þeir eru endanleg lögfræðileg niðurstaða en þeir eru ekki endilega rétt lögfræðileg niðurstaða.