Í síðustu viku var greint frá því að á þessu ári hefðu rúmlega 4.000 einstaklingar setið í nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Það var hins vegar ekki þessi óheyrilegi fjöldi sem þótti fréttnæmur heldur hvernig þessum sætum var skipt milli ungra og aldinna, nær- og fjarsýnna, ljós- og dökkhærðra og síðast en ekki síst milli karla og kvenna. Flestir töldu að fjöldi kvenna væri óeðlilegur og fjölga þyrfti konum í nefndum og ráðum en þær eru nú 1.082 en 3.005 karlar. Vef-Þjóðviljinn vill hins vegar nota tækifærið og óska konum til hamingju með að vera nær því en karlar að vera með eðlilegan fjölda í nefndum og ráðum ríkisins. Karlar mættu taka þær sér til fyrirmyndar.
Það væri svo mun forvitnilegra að skoða í hve mörgum nefndum ákveðnir einstaklingar sitja. Það væri til dæmis fróðlegt að sjá í hve mörgum nefndum ýmsir embættismenn sitja og hvert hlutfall opinberra starfsmanna og annarra er í nefndum ríkisins. Ætli það kæmi á daginn að stór hluti nefndarmanna sé embættismenn sem sitja í nefndum sem koma með tillögur um aðstöðu, verkefni og valdsvið embættismannanna sjálfra?
Mikið hefur verið rætt um hið „nýja hagkerfi“ að undanförnu og svonefndan „þekkingariðnað“. Erfitt getur þó reynst að greina á milli hins nýja og gamla hagkerfis og ýmsir telja sig starfa í þekkingariðnaði en engir í vanþekkingariðnaði. Alan Greenspan seðlabankastjóri í Bandaríkjunum gerði til dæmis olíuiðnaðinn að umtalsefni í ræðu sem hann flutti í haust. Eftir aldri og eðli að dæma ætti olíuiðnaðurinn að vera hluti af gamla hagkerfinu.
Greenspan sagði: „Olíuverð er aftur orðið að mikilvægri stærð í efnahagslífinu. Það bendir til þess að ekki séu jafn skörp skil á milli nýja og gamla hagkerfisins og oft er gefið í skyn. Jafnvel olíuiðnaðurinn, sem hlýtur að teljast eitt mikilvægasta hjólið í gangverki gamla hagkerfisins, er furðulega mikilvægur fyrir nýja hagkerfið.“ Og Greenspan hélt áfram: „Olíuframleiðsla hefur gjörbreyst á undanförnum árum og þessi breyting mun hafa úrslitaáhrif á allar verðsveiflur á olíu. Í ljósi þessara breytinga hefur olíuiðnaðurinn a.m.k. fengið aukaaðild að nýja hagkerfinu. Framfarir í jarðfræði og mælitækjum á síðasta áratug hafa tvöfaldað líkur á því að borun eftir olíu skili árangri. Í dag hafa borar sem notaðir eru við olíuleit fleiri örgjörva í sér en nýtísku skrifstofubygging. Þessi nýja tækni gerir mönnum kleift að bora mun dýpra en áður, ekki síst á hafsbotni.“