Miðvikudagur 5. júlí 2000

187. tbl. 4. árg.

Það er ekki nýtt að spákaupmenn séu illa þokkaðir. Frá ómunatíð hafa þeir sankað að sér ódýrum vörum og selt þær aftur á háu verði þegar skortur er á þeim. Til dæmis hafa þeir birgt sig upp af korni í góðæri og selt aftur í hallæri á uppsprengdu verði. Í fljótu bragði virðast þeir því gera sér mat úr matarskorti annarra. Ef til vill á það einnig þátt í slæmu orðspori spákaupmanna að þeir eru boðberar válegra tíðinda. Þegar þeir fara á stjá og sanka að sér vöru má gera ráð fyrir að skortur sé yfirvofandi.

En starf spákaupmanna gerir gagn. Með því að kaupa vörur þegar offramboð er af þeim og verð lágt og selja þær aftur þegar skortur er og verð hátt draga þeir úr verðsveiflum. „Atlögur“ spákaupmanna minna menn einnig á að fara vel með og spara til mögru áranna. Í stuttu máli má því segja að spákaupmenn leggi fé sitt að veði til að tryggja meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar og þar með aukinn verðstöðugleika. Þegar spákaupmönnum tekst ætlunarverk sitt – þ.e. að græða með því að kaupa ódýrt og selja dýrt – njóta menn góðs af í stöðugu framboði og verði.

Hið sama gildir um kaup og sölu spákaupmanna á gjaldeyri. Þeir kaupa á háu verði og selja á lágu og draga þar með úr sveiflum. Það gleymist oft að spákaupmenn þurfa líka að selja – en ekki bara að kaupa – til að hagnast. Það fer því saman að vera spákaupmaður og græða og draga úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði. Seðlabanki Íslands kaupir og selur gjaldeyri í þeim tilgangi halda gengi krónunnar innan vissra marka. Eða eins og segir á heimasíðu bankans um markmið hans: „Stöðugt gengi er mikilvægt fyrir verðlagsþróun og því beitir bankinn stjórntækjum sínum til að halda gengi krónunnar innan tilskilinna marka.“ Til að mæla árangur Seðlabankans við að halda krónunni stöðugri er einfaldast að skoða hvort bankinn hefur hagnast á kaupum og sölu á íslensku krónunni. Ef bankinn hefur tapað á þessum viðskiptum er ljóst að hann hefur keypt krónuna á háu verði og selt á lágu og þar með aukið eftirspurn þegar eftirspurn eftir krónunni er mikil og aukið framboð þegar framboð er mikið. Af því leiðir að bankinn hefur magnað verðsveiflur á krónunni.

Vef-Þjóðviljinn hefur ekki hugmynd um hvort hagnaður er af gjaldeyrisbraski Seðlabanka Íslands en þar til annað kemur í ljós má þó segja að Vef-Þjóðviljinn hafi grun um að starfsmenn Seðlabanka Íslands standi ekki undir heiðursnafnbótinni spákaupmenn.