Fimmtudagur 6. júlí 2000

188. tbl. 4. árg.

Niðurgreiðslur landbúnaðarafurða hækkuðu innan OECD landanna á síðasta ári, ef marka má umfjöllun tímaritsins The Economist á dögunum. Hækkunin nam 3% og fór í 361 milljarð Bandaríkjadala sem er um 1,4% af landsframleiðslu þessara ríkja. Mestur var stuðningurinn í Tyrklandi, 8,3%, og minnstur á Nýja Sjálandi, 0,4%. Ísland er þarna á milli, en á Íslandi fara rúmlega 2% af landsframleiðslunni í niðurgreiðslur landbúnaðarafurða. Þessi stuðningur hefur minnkað töluvert hér á landi frá síðasta áratugi, því á árunum 1986-88 var hann um 5%. Niðurgreiðslur segja þó ekki alla söguna, því þær eru ekki nema 40% af heildarstuðningnum við landbúnaðinn í OECD. Annar stuðningur er óbeinn, svo sem reglur um verð, innflutning og svo framvegis.

Þó niðurgreiðslur hafi minnkað hér á landi má enn sjá leifar gamla tímans. Þannig var í fréttum í gær sagt frá því að þrjár graskögglaverksmiðjur hefðu fengið 90 milljóna króna styrk til að hætta framleiðslu. Þar sem um grasköggla og þar með landbúnaðarframleiðslu er að ræða þykir víst ofur eðlilegt að Alþingi samþykki slíkan „styrk til að hætta framleiðslu“, en ef um aðra framleiðslu væri að ræða hefði málið líklega ekki verið jafn auðsótt. Eða kannast menn við að kaupmaðurinn á horninu fái styrk til að hætta verslun? Fær veitingamaðurinn styrk til að loka veitingahúsinu ef markaðsaðstæður verða óhagstæðar? Nei, ekki er um neitt slíkt að ræða frekar en von er, en eitt ætti yfir alla að ganga og þess vegna er afar óeðlilegt að landbúnaðurinn skuli ævinlega vera á slíkum sérkjörum og hafa svo greiðan aðgang að vösum skattgreiðenda.

Ýmsir hafa gagnrýnt kostnað og jafnvel fleira við Kristnihátíð. Rætt var við Sigurbjörn Einarsson biskup í DV í gær um þá gagnrýni. Hann sendi gagnrýnendum þessa kristilegu kveðju: „Sumt af því sem hefur verið birt á opinberum vettvangi minnir á það allra versta sem verstu nasistar og kommúnistar höfðu fram að færa á sínum tíma. Þetta endurspeglar andkristin viðhorf þeirra sem um ræðir. Kostnaður þessarar hátíðar er síðan smávægilegur samanborinn við þann kostnað sem þjóðin leggur í skemmtanir um hverja helgi. Á þeim skemmtunum tapast ekki bara peningar því þar eru mannssálir einnig í húfi sem geta spillst og eyðilagst. Það er meira en lítil brenglun að finna að því að þessi hátíð kosti einhverja peninga. Ég hef enga trú á því að meirihluti þjóðarinnar telji þetta eftir kirkjunni.“