Það birtist Viðhorf í Morgunblaðinu í fyrradag eftir Kristján Jónsson um fjölskyldueinkabílinn, olíuverð, gróðurhúsaáhrif og fleira. Kristján benti réttilega á að skýrslur alþjóðlegra stofnana um gróðurhúsaáhrifin séu rangtúlkaðar, ekki síst þar sem fyrirvörum við mat á gróðurhúsaáhrifunum sé sleppt. En Kristján hélt því einnig fram að olían muni klárast.
Vef-Þjóðviljinn hefur áður fjallað um það hvort olían sé senn á þrotum. Það gerði einnig Björn Lomborg höfundur bókarinnar Hið sanna ástand heimsins í fyrirlestri sínum á fundi Frjálsrar verslunar og Fiskifélagsins á mánudaginn. Þar sýndi hann hvernig olíuforði heimsins (þ.e. vinnanleg olía miðað við verð á hverjum tíma á móti notkuninni á hverjum tíma) hefur vaxið nokkuð jafnt og þétt alla öldina. Það er óneitanlega skrítið að það vaxi sem af er tekið enda hafa menn spáð því nær látlaust alla öldina að nú fari olían að klárast. En þetta skýrist af miklum framförum í olíuleit og nýtingu á olíulindum. Nú eru til vinnanlegar birgðir af jarðefnaeldsneyti (olíu, kolum og gasi) til nokkur hundruð ára. Lomborg benti jafnframt á að nýjar lausnir á orkumálum heimsins muni koma fram löngu áður en síðasti olíudropinn verður kreistur upp úr jörðinni. Olían mun því ekki klárast.
Kristján hélt því einnig fram að við Vesturlandabúar megum ekki vera upp á araba komnir hvað orku varðar. Þetta er svipaður málflutingur og heyrðist til réttlætingar á afskiptum Vesturlanda af innrás Íraka í Kúvæt. Að því tilefni varpaði Milton Friedman fram þeirri spurningu hvað menn héldu að arabarnir ætluðu að gera við olíuna, annað en að selja okkur hana. Ekki gætu þeir étið hana.