Því hefur stundum verið haldið fram að það sé svindlað á velferðarkerfinu þ.e. þeir sem þurfi ekki bætur nái sér í bætur með því að skrá sig atvinnulausa en stundi samt vinnu, ungt fólk slíti samvistum á pappírunum til að hækka barnabætur, námslán og vaxtabætur, eldra fólk slíti samvistum til að ellilífeyrinn skerðist ekki, menn vinni svart til að hækka bætur og minnka endurgreiðslur af námslánum o.s.frv. Nú er hins vegar komið fram lagafrumvarp um fæðingarorlof sem er ætlað að sjá til þess að menn svindli ekki á velferðarkerfinu. Í fyrsta lagi verður reynt að gera menn að bótaþegum áður en þeir hafa ráðrúm til að svindla sér sjálfir inn á kerfið. Í öðru lagi verða bæturnar hafðar svo háar að engin hafi lyst á meiru. Í þriðja lagi verður bótunum sérstaklega beint til þeirra sem þurfa ekki á þeim að halda þ.e. hátekjufólkinu.
Þannig mun milljón króna maðurinn fá 5 milljónir í fæðingarorlofsbætur þar sem bæturnar verða 80% af tekjum mánuðina á undan en tekjulaus heimavinnandi maður mun fá 200 þúsund krónur fyrir sama 6 mánaða orlof. En þrátt fyrir þessa nýstárlegu viðleitni til að koma í veg fyrir bótasvindl hafa menn þegar komið auga á nokkrar vænlegar leiðir til að féfletta þetta nýja bótakerfi.
Heimavinnandi foreldri á að fá 200 þúsund króna fæðingarstyrk frá ríkinu fyrir 6 mánuði með barninu. Með því að skrá sig í nám í einhverjum af hinum „ókeypis“ skólum ríkisins, hækkar styrkurinn í 450 þúsund krónur þar sem námsmenn eiga rétt á hærri bótum en þeir sem eru heimavinnandi.
Eigandi fyrirtækis hefur 500 þúsund krónur í mánaðarlaun. Hann verður þungaður. Með sömu tekjum fram að fæðingu fær hann „einungis“ 2,4 milljónir króna frá ríkinu fyrir 6 mánaða fæðingarorlof. Fyrirtækið á 5 milljón króna jeppa sem er seldur og laun eigandans fram að fæðingu hækka í 1 milljón á mánuði. Við þetta hækka fæðingaorlofsbæturnar úr 2,4 í 4,8 milljónir króna.
Launþegi er í sérhæfðu starfi hjá fyrirtæki sem má illa við því að missa hann í fæðingarorlof í 6 mánuði. Þeim semst því um að hann vinni 50% starf í fæðingarorlofinu. Nú má ekki greiða mönnum laun á meðan töku fæðingarorlofs stendur. Það verður því að gera það fyrir eða eftir orlofið. Með því að greiða launin fyrir vinnuna í orlofinu áður en orlofið hefst má hækka bæturnar þar sem þær miðast við 80% af launum áður en orlofið hefst.