Fimmtudagur 4. maí 2000

125. tbl. 4. árg.

Ýmsir eru sjálfsagt undrandi yfir því að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar láta sér það í léttu rúmi liggja að með frumvarpi um fæðingarorlof er gert ráð fyrir því að hátekjufólk geti sótt margar milljónir í félagslegar bætur til ríkisins. Láglaunafólkið sem verkalýðsrekendur nota í raun sem réttlætingu fyrir tilvist verkalýðshreyfingarinnar mun hins vegar ekki njóta bóta fyrir barneignir í líkingu við það sem hátekjufólkið fær. Einstaklingi með 100 þúsund krónur í mánaðarlaun verður boðið að taka fæðingarorlof á 80 þúsund krónum á mánuði. Verkalýðsrekendur segja gjarnan að afar erfitt sé að lifa á 100 þúsund krónum og þegar menn eru með svo lágar tekjur er ekki hlaupið að því að taka á sig 20% launalækkun, allra síst þegar nýr einstaklingur hefur bæst í fjölskylduna. En þetta styðja forystumennirnir og geta ekki leynt ánægju sinni.

En skýringin á því að verkalýðsrekendur hafa ekkert við þessa atlögu að láglaunafólki að athuga er augljós. Sérfræðingarnir á skrifstofum verkalýðsfélaganna; framkvæmdastjórarnir, skrifstofustjórarnir, ritstjórarnir, fræðslustjórarnir, hagfræðingarnir, vinnumarkaðsfræðingarnir, lögfræðingarnir, stjórnmálafræðingarnir, búa við allt önnur kjör en alþýðan sem þetta lið hefur tekið að sér að vera talsmenn fyrir. Þetta lið mun taka inn mörg hundruð þúsund krónur á mánuði í fæðingarorlofsstyrki. Þau útgjöld sem leggjast á atvinnulífið vegna þessara velferðarbóta til hátekjufólks munu takmarka svigrúm atvinnulífsins til að bæta kjörin, þ.á m. kjör þeirra sem þurfa mest á því að halda.

Enn ein „stundin er runnin upp“ hjá vinstri mönnum verður í Borgarleikhúsinu um helgina þegar stofnfundur Samfylkingarinnar fer fram. Yfirskrift fundarins er að þessu sinni: Jöfnum leikinn í samfélaginu. Og svo styður Samfylkingin frumvarpið um fæðingarorlofið þar sem hálaunafólki eru færðar áður óþekktar upphæðir í félagslegar bætur. En láglaunafólkið fær lítið sem ekkert. Frekar en stundum áður. Eini munurinn er, að nú segja pópúlistarnir ekki neitt.

Hann ekki.
Hann ekki.

Sagði orð af viti
Sagði orð af viti

Skylt er þó að geta þeirrar undantekningar að Guðrún Ögmundsdóttir hefur þó hvatt til þess að þak verði sett á greiðslur til manna úr hinum hugsanlega fæðingarorlofssjóði. Athyglisvert og eftirminnilegt að fulltrúi Kvennalistans í Samfylkingunni taki skynsamlegri afstöðu en varaformaður Sjálfstæðisflokksins til fæðingarorlofsmála.