Allmörg ár eru síðan menn tóku fyrst eftir því að Ólafur Ragnar Grímsson hefur yndi af að bera bölmóð á borð fyrir þjóðina. Þegar hann svo að forminu til sagði skilið við Alþýðubandalagið í beinni útsendingu eftir að hafa verið kosinn forseti Íslands vonuðu margir að hann hefði einnig sagt skilið við þennan framsetningarmáta skoðana sinna. Þeim sem hlustuðu á nýársávarp hans fyrir tveimur árum varð hins vegar ljóst að Ólafur Ragnar hafði engu gleymt. Þá kynnti hann fyrir þjóðinni að yfir landið kynni að leggjast íshella sem gerði það óbyggilegt. Var þetta byggt á veikum rökum svo ekki sé meira sagt. Tilgangurinn virðist hafa verið sá að hræða fólk til fylgis við öfgasinnaða umhverfisverndarmenn sem berjast fyrir auknum ríkisumsvifum og tortryggja vestrænt markaðshagkerfi.
Um síðustu áramót hafði Ólafur Ragnar fundið nýja aðferð til að sá efasemdarfræjum um markaðshagkerfið í hjörtu landsmanna. Nú mun það vera siðferðið sem er á niðurleið hjá landanum ef marka má forseta landsins. Hann ræddi hvernig þetta hefði verið í fortíðinni og spurði svo m.a.: „Er búið að brengla svo hugarfar samkenndar og samhjálpar sem verið hefur aðalsmerki Íslendinga að gildustu strengirnir í siðferðisvitund þjóðarinnar séu nú að trosna?“ Þetta er vissulega ólíkindalegur boðskapur og furðuleg lífssýn þegar til þess er litið að fólk hefur aldrei í sögunni haft það betra. En boðskapurinn þjónar þeim tilgangi að kalla á þær „lausnir“ sem vinstri menn hafa ævinlega talið nærtækastar, þ.e. aukin afskipti ríkisins.
Það er eins með þetta og hina nýju umhverfisöfgahyggju, að þetta er notað til að rökstyðja aukin ríkisafskipti. Aukin markaðsviðskipti og samdráttur hins opinbera á sumum sviðum veldur vinstri mönnum áhyggjum og þeir sjá fyrir sér að hugsjón þeirra um umsvifamikið ríkisvald sé í hættu. Þá er ekki annað að gera en nota hvert tækifæri, þar á meðal nýársávarp forseta Íslands, til að gera hlut vestræns markaðsbúskapar sem verstan.